131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:20]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér finnst eiginlega varla eiga að þurfa að þakka það þó undinn sé bráður bugur að því að lagfæra þetta endurgreiðsluhlutfall þannig að það halli ekki beinlínis á íslenska skipasmíðaiðnaðinn að þessu leyti, að hann sé skattlagður sérstaklega umfram smíðar eða viðgerðir erlendis, en samkvæmt skýrslunni er endurgreiðsluhlutfallið nú of lágt. Við erum eingöngu að tala um þann þátt málsins. Að ýmsu öðru leyti er stutt við þennan iðnað í nágrannalöndunum og hefur lengi verið gert og ég heyrði ekkert um að til stæði að breyta því hér af okkar hálfu. Ég segi nú þakka skyldi það þó fyrr hefði verið að á þessu væri tekið.

En það eru margar skýrslurnar og margar tillögurnar um aðgerðir til stuðnings íslenskum skipaiðnaði frá undangengnum árum m.a. sem hafa legið á borðum hæstv. iðnaðarráðherra sem ekkert hefur verið gert með og ekkert hefur orðið úr. Þetta lítilræði er því sjálfsagt að þakka en ég minni á að það er samt langt í land að Íslendingar hafi hlúð að þessari grein með sambærilegum hætti og nágrannalöndin og allt saman fullkomlega löglegt samkvæmt EES-reglum, samanber úttekt EES á reglum Norðmanna.