131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:24]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) (S):

Frú forseti. Ég er ánægður með þessar jákvæðu undirtektir hæstv. fjármálaráðherra. Hann segir reyndar að það þurfi að meta það af einhverri nefnd hvað endurgreiðslurnar þurfi að vera háar en ég minni á að niðurstaða nefndarinnar sem ég vitnaði til er ótvíræð og í þeirri nefnd sat fulltrúi fjármálaráðherra ásamt fulltrúa iðnaðarráðherra og Samtaka iðnaðarins. En ég hvet hæstv. ráðherra til að láta hraða niðurstöðum þannig að þessar leiðréttingar komi sem allra fyrst því að stöðvarnar þurfa á þeim að halda. Það er nauðsynlegt að bæta skerðingu endurgreiðslnanna og með ólíkindum að menn skuli hafa dregið andvirði skipsskrokkanna frá við útreikningana vegna þess að það er auðvitað enginn munur á innflutningi á skipsskrokki og öðrum innflutningi til skipasmíðinnar, þ.e. vélum, spilum, siglinga- og fiskileitartækjum og fleira. Þetta er undarleg aðgerð sem þarf auðvitað að leiðrétta eins og er lagt til í skýrslunni.

Ég vil líka leggja áherslu á að opinberar stofnanir verða að muna eftir þessari iðngrein en ekki setja stein í götu hennar eins og mér finnst að hafi verið gert við ákvörðun um breytingar á varðskipunum en allur aðdragandi og ákvarðanataka í því máli benti til að Ríkiskaup vildu að verkin yrðu unnin erlendis en ekki hérna heima, svo sem eins og fara að gefa einhverjum ISO-staðli vægi í því sambandi vitandi það að íslensku stöðvarnar hafa ekki ISO-staðal og það skiptir engu máli upp á verkið sjálft. Það vita allir að þessar íslensku stöðvar sem buðu í þetta verk, Slippstöðin á Akureyri og Þorgeir og Ellert á Akranesi hafa í gegnum tíðina skilað góðu verki og óþarfi að reyna að leggja stein í götu þeirra.

Á árunum 1988 og 1989 voru leyfðir ríkisstyrkir innan ESB sem gátu numið allt að 28% af smíðaverði skipa og þá hófst þessi mikli samdráttur í skipasmíðunum á Íslandi. Á þeim 18 árum sem síðan eru liðin varð þessi samdráttur allt að 70%. Þetta er auðvitað ekki síst alvarlegt vegna þess að skipasmíðastöðvarnar hafa verið mjög mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir járniðnaðarmenn á síðari hluta síðustu aldar og þessi mikli samdráttur hefur leitt til skorts á járniðnaðarmönnum.

Ég ítreka þakkir til hæstv. fjármálaráðherra og vona að hann hraði niðurstöðu málsins og hún verði sem allra jákvæðust.