131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi.

512. mál
[14:27]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Það var mörgum gleðiefni þegar hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, tók af skarið í janúarmánuði sl. og setti fram hugmyndir um að nota mætti hagnað af sölu Símans til að flýta uppbyggingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að bráðaþjónusta sjúkrahússins verði rekin á einum stað við Hringbraut sem er framtíðaruppbyggingarsvæði spítalans. Ég tel þó að flestir hafi gert sér grein fyrir að bið getur orðið á að þessi áform gætu ræst þar sem kostnaður við byggingu nýs spítala er mikill eða áætlaður rúmir 36 milljarðar kr.

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum, m.a. um samkeppni um skipulag á lóð LSH, eru því ánægjulegri fyrir bragðið og ljóst að framtíðardraumarnir eru ekki eins fjarri og margir höfðu talið.

Starfsemi LSH fer fram víða á höfuðborgarsvæðinu. Stærstu byggingarnar utan Hringbrautar eru á Landakoti, á Kleppi og í Fossvogi og reyndar er það svo að þegar rætt er um að flytja starfsemi spítalans á einn stað er almennt verið að ræða um bráðastarfsemina og hafa því Landakot og Kleppsspítali verið utan við umræðuna. Ekki hef ég heyrt hugmyndir um að leggja niður starfsemi á þessum tveim byggingum þegar nýr spítali hefur risið en hæstv. heilbrigðisráðherra leiðréttir mig þá ef það er misskilningur minn.

Hins vegar er ljóst að starfsemi sem nú fer fram í Fossvogi verður flutt á Hringbrautina. Borgarspítalinn í Fossvogi, sem nú er undir LSH, er eitt best búna sjúkrahús landsins og með þeim yngstu. Spítalinn tók formlega til starfa á árinu 1968 og hefur á síðustu árum verið mikið endurnýjaður. Til dæmis hafa skurðstofur gjörgæsludeild og aðrar bráðadeildir verið endurnýjaðar frá grunni á síðustu árum. Ljóst er að mikið fjármagn er bundið í sjúkrahúsinu.

Tilefni spurningar minnar í dag er viðtal sem birtist við starfandi forstjóra LSH, Jóhannes Gunnarsson, fyrir nokkrum vikum. Þar var hann spurður að því hvað yrði gert við Borgarspítalann í Fossvogi. Hann svaraði því til að ráðgert væri að selja spítalann og lóðina sjálfa. Satt að segja hafði ég aldrei áður heyrt þessu fleygt fram og því þótti mér áhugavert að heyra hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um örlög spítalans og hvernig hann hefur hugsað sér að fylgja þeim eftir. Hvaða hugmyndir liggja að baki svari forstjóra LSH? Hafa áhugasamir kaupendur gefið sig fram? Að því gefnu að sjúkrahúsið verði áfram nýtt til að veita heilbrigðisþjónustu, hvaða hugmyndir hefur hæstv. ráðherra um hvers konar þjónusta verði þar veitt? Mun hæstv. ráðherra taka jákvætt í að veita rekstrarleyfi til einkaaðila með rekstur sjúkrahúss í Fossvogi?

Ljóst er að verðmæti sjúkrahússbygginga í Fossvogi miðast m.a. við hvaða starfsemi mun fara þar fram eftir að hann verður seldur og í hve miklum mæli hægt er að nýta þá fjárfestingu sem liggur í spítalanum. Því er skynsamlegt að gera áætlanir um nýtingu sjúkrahússins í framtíðinni og miða viðhald á byggingum og tækjum við slíkar áætlanir. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra um hugmyndir hans um ráðstöfun sjúkrahússbygginga í Fossvogi.