131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi.

512. mál
[14:30]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

„Hvaða hugmyndir eru uppi um ráðstöfun sjúkrahússbygginga í Fossvogi, áður Borgarspítalans, þegar starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur verið sameinuð á einn stað við Hringbraut?“

Þann 27. apríl 2004 undirritaði ég fyrir hönd ríkisins ásamt borgarstjóra Reykjavíkurborgar samning þar sem fjallað er m.a. um lóðir á vegum Landspítalans í Fossvogi. Í samningnum segir að þær lóðir sem Landspítali – háskólasjúkrahús hafi umráð yfir í Fossvogi komi með samkomulagi um hlut Reykjavíkurborgar að öðru leyti en því að aðalbyggingu spítalans verður afmörkuð lóð sem nánar er skilgreind í samningnum. Þá segir að verði tekin ákvörðun um flutning þeirrar starfsemi sem nú fer fram í aðalbyggingu sjúkrahússins í Fossvogi í tengslum við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut muni Reykjavíkurborg ekki standa í vegi fyrir því að eignin verði nýtt með öðrum þætti en í þágu heilbrigðisþjónustu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um ráðstöfun sjúkrahússbygginganna í Fossvogi en nokkrar hugmyndir hafa verið til umræðu. Það er rétt að taka fram að um hugmyndir er að ræða, og ég ítreka það þar sem enn hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um framkvæmdir. Það er afar brýnt að fara ekki fram úr sjálfum sér í því sambandi.

Í fyrsta lagi hafa þær nefndir sem ég hef skipað til að fjalla um uppbyggingaráformin gert ráð fyrir að eignir Landspítalans á höfuðborgarsvæðinu verði seldar og söluandvirðið nýtt til uppbyggingar sjúkrahússins. Ljóst er að þarna er um mikil verðmæti að ræða og vel má hugsa sér að húsnæði Borgarspítalans gamla geti nýst fyrir aðra starfsemi en heilbrigðisþjónustu.

Í öðru lagi hefur verið til lauslegrar skoðunar hvort nýta mætti húsnæðið í Fossvogi fyrir öldrunarþjónustu en það mundi koma í góðar þarfir. Húsnæðið er 28 þús. fermetrar og var B-álma þess hönnuð sem öldrunarlækningadeild. Í húsnæðinu mætti koma fyrir á þriðja hundrað legurýmum auk margvíslegrar þjónustu fyrir hina öldnu einstaklinga.

Í þriðja lagi hafa verið nefndar hugmyndir um nýtingu Borgarspítalans gamla sem miðstöðvar fyrir endurhæfingarstarfsemi og mun húsnæðið henta nokkuð vel fyrir slíkt hlutverk.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að hér er aðeins um lauslegar hugmyndir að ræða og í raun ekki farið að gera neinn formlegan samanburð á þeim, möguleikum sem til greina kæmu, enda er það vart tímabært. Núgildandi áætlanir gera ráð fyrir sölu Borgarspítalans en aðstæður í samfélaginu á þeim tíma þegar byggingar tæmast og losna munu ráða miklu um nýtingu eignarinnar. Ljóst er að húsnæðið í Fossvogi mun verða notað fyrir starfsemi spítalans um nokkurn tíma enn, þangað til starfsemin verður öll flutt í hinar nýju byggingar sem vonandi munu rísa við Hringbrautina, en aftur vil ég taka það fram að gefnu tilefni að enn hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um framkvæmdir þótt verið sé að undirbúa málið um framkvæmdir við byggingu spítalans. Vonandi kemst skriður á það mál eins og hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum.