131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:40]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að um margra ára skeið hefur verið sláandi skortur á aðstöðu fyrir fanga með geðræn vandamál í fangelsum landsins. Þeir fangar sem eiga við verulega geðræn vandamál að stríða og þyrftu á sjúkrahúsvist að halda fá sjaldnast vistun á geðdeildum. Forstjóri Fangelsismálastofnunar og Fangelsismálastofnun hafa sent ítrekað bréf til heilbrigðisyfirvalda og beðið um úrbætur í málefnum þessara fanga þar sem talið er að 6–8 fangar séu mjög alvarlega veikir hverju sinni og þurfi á sérvistun að halda.

Einnig hefur komið fram ályktun frá Fangavarðafélagi Íslands þar sem bent er á þörf fyrir úrræði fyrir fanga sem eiga við veruleg geðræn vandamál að stríða og síðast í gærkvöldi var viðtal við Bjarnþóru M. Pálsdóttur, sem er varaformaður Fangavarðafélags Íslands, þar sem hún talar um skort á meðferð fyrir fanga. Þá er fyrst og fremst verið að tala um fíkniefnavandamál en það er líka kunnara en frá þurfi að segja að þeir sem hafa lengi neytt sterkra fíkniefna eiga oftar en ekki við geðræn vandamál að stríða. Þess vegna hefur orðið þessi skortur á úrræðum fyrir fanga sem dvelja til að mynda á Litla-Hrauni eða í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem þeir dvelja allt að sex mánuðum án þess að fá þjónustu við hæfi, hvorki meðferð við fíkniefnaneyslu við komu í fangelsið né viðunandi meðferð vegna geðrænna vandamála sem fylgja fíkniefnaneyslunni. Eins er með kvennafangelsið þar sem hefur þurft að vista fanga með geðræn vandamál þó að engin aðstaða sé til þess.

Fyrir stuttu síðan var einn fangi fluttur frá kvennafangelsinu að Litla-Hrauni í einangrunarvistun, m.a. vegna þess að sá einstaklingur á við verulega mikil geðræn vandamál að stríða. Það virðist hins vegar ekki vera lausn fyrir þann fanga að vera vistuð á Litla-Hrauni og varla í samræmi við þá sjúkdómsgreiningu sem hún hefur fengið hjá læknum fangelsis.

Ég spyr hæstv. ráðherra:

Hefur verið brugðist við óskum Fangelsismálastofnunar um úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsanna? Ef svo er, á hvern hátt? Ef ekki, hvenær má vænta úrbóta?