131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:53]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt hversu margir hafa tekið þátt í þessari umræðu, hversu margir þingmenn taka til máls, vegna þess að oft og tíðum er þetta málaflokkur sem ekki margir sýna áhuga. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þó að það séu vissulega spor í rétta átt að auka þjónustuna um hálfa stöðu á Litla-Hrauni, það skiptir auðvitað verulegu máli, skiptir enn meira máli aðgangur fanga að leguplássum utan fangelsis, þegar við alvarleg geðræn vandamál er að stríða. Á það hefur bæði Sigurður Guðmundsson landlæknir bent og einnig núverandi forstöðumaður Fangelsismálastofnunar sem hefur sinnt þessum málum mjög vel. Hann segir m.a. í bréfi sem sent var til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að komið hafi upp dæmi þar sem föngum sem eiga við geðræn vandamál að stríða hafi verið vísað frá geðdeildum. Hann rekur sögu fanga sem síðasta sumar hafi verið í miklum geðsveiflum og ítrekað reynt sjálfsvíg. Að mati læknis taldist ástand hans orðið mjög ótryggt og var hann því sendur á bráðageðdeild Landspítalans. Um klukkustund síðar var fanginn sendur í Hegningarhúsið og vistaður í einangrun af öryggisástæðum. Hann var síðan sendur á réttargeðdeildina að Sogni og jafnframt segir fangelsismálastjóri að dæmi séu um að föngum sem sendir séu á geðdeild hafi verið snúið við á tröppunum og þeir sendir aftur í fangelsi eftir nokkrar klukkustundir.

Við vitum hvaða afleiðingu slík meðferð hefur haft og þurfum svo sem ekki að rekja þau dæmi hér úr ræðustól. En það er mikil nauðsyn á því að tryggja leguplássin, til þess þarf fjármagn og því fjármagni er best varið við frekari uppbyggingu að Sogni. Það liggja fyrir teikningar, það kostar um 29 millj. kr. að bæta þar pláss þannig að húsnæðið geti tekið 7–8 fanga.