131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[15:00]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur beint til mín spurningum um viðbrögð við faraldri, bæði viðbragðsáætlanir, birgðir inflúensulyfja og fleiri atriði tengd þessu.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa ásamt íslenskum stjórnvöldum unnið að viðbragðsáætlun og sóttvarnarráðstöfunum vegna faraldra, svo sem hugsanlegs heimsfaraldurs vegna inflúensu af A-stofni sem nú geisar í fiðurfé í Suðaustur-Asíu. Þar hefur fólk smitast af fuglum. Enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á að virkt smit hafi borist manna í millum. Verði slík smitun milli manna staðfest er hætta á heimsfaraldri verulega meiri og skilgreint hættuástand verður aukið.

Undirbúningur að þessari viðbragðsáætlun hófst fyrir rúmu ári. Viðbúnaður á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hefur verið aukinn og einnig er áfram unnið að auknum viðbúnaði annars staðar í heilbrigðisþjónustunni. Af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur aðgerðum verið stýrt í náinni samvinnu við sóttvarnalækni. Er hann reiðubúinn með frekari aðgerðir verði þeirra talin þörf, allt eftir tegund og eðli ógnarinnar. Birgðir veiruhamlandi lyfja voru auknar á síðasta ári. Aukist alþjóðlegt hættustig, t.d. ef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin staðfestir að fuglainflúensa sé farin að berast manna á milli, verður sent dreifibréf á vegum sóttvarnalæknis með fyrirmælum til lækna um að vera vakandi gagnvart hugsanlega auknum fjölda inflúensutilfella. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að heimila sóttvarnalækni að kaupa lyf við inflúensu fyrir 10 millj. kr. Þá hafa verið birtar upplýsingar á heimasíðu landlæknisembættisins til ferðamanna sem ferðast til svæða þar sem fuglainflúensa af AH5N1 geisar. Þá hefur sóttvarnanefnd samvinnu við yfirdýralækni komi til þess að fuglainflúensa berist í íslenskt fiðurfé.

Enn er ekkert bóluefni til gegn inflúensu af stofni AH5N1 fyrir menn og alls óljóst hvenær það verður til þar sem veiran hefur ekki enn tekið þeim breytingum sem margir óttast að síðar verði. Þá fyrst þegar gerð slíkrar veiru er ljós getur framleiðsla á bóluefni hafist.

Í ljósi þess að fuglaflensan í Asíu heldur áfram og fleira fólk hefur sýkst þar með hárri dánartíðni hefur verið ákveðið að auka enn viðbúnaðinn gegn heimsfaraldri hér á landi. Starfar nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem í sitja fulltrúar heilbrigðis- og dómsmálaráðuneytisins sem er ætlað að samræma viðbrögð hinna ýmsu þátta stjórnkerfisins komi til heimsfaraldurs af þessum eða svipuðum toga. Þar er m.a. verið að kanna möguleika á sóttkví, einangrun og öðrum hindrandi aðgerðum gegn smiti. Samtímis er mikilvægt að skapa ekki ástæðulausan ótta meðal almennings. Flæði upplýsinga er því afar mikilvægt.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa í samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, Evrópusambandið og Norðurlöndin unnið að þróun viðbragðsáætlunar vegna heimsfaraldurs inflúensu. Meðal þeirra úrræða sem rædd hafa verið er aukið birgðahald sértækra inflúensulyfja og er það mál í frekari skoðun. Lagt hefur verið til að þjóðir heims eigi tiltæk á hverjum tíma lyf við inflúensu og stefna flestar nágrannaþjóðir okkar að því að hafa tiltæka meðferðarskammta fyrir 25–30% íbúa sinna, einkum fyrir fólk í öryggis- og heilbrigðisþjónustu, sem og fyrir einstaklinga í sérstökum áhættuhópum. Þess má geta að meðferð með inflúensulyfjum seinkar hugsanlega einungis vandanum og gæti aðeins orðið tiltæk lausn í skamman tíma meðan bóluefni er í framleiðslu. Lyfjabirgðahald er því einungis ein af þeim ráðstöfunum sem gripið verður til. Virkt bóluefni er farsælasta lausnin þegar það verður fáanlegt.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef greint frá hefur verið unnið talsvert mikið að viðbragðsáætlun gagnvart hugsanlegum faröldrum sem miðast þó ekki eingöngu við inflúensu heldur faraldra af hvaða toga sem er. Margir útfærsluþættir slíkra ráðstafana verða þó aldrei ákveðnir fyrr en ljóst er af hvaða toga faraldurinn er og hvaða viðbrögð megi teljast farsælust til að hindra sem mest útbreiðslu hans.

Ég vona að svar mitt hafi upplýst hv. þingmann um þau viðbrögð sem hafa verið og eru í vinnslu af hálfu stjórnvalda.