131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:19]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurk., Margrét Frímannsdóttir, og hv. 4. þm. Suðvest., Rannveig Guðmundsdóttur, hafa beint til mín fyrirspurn um umboðsmenn sjúklinga.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hver voru verkefni fulltrúa sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi? Hvernig reyndist starf hans og hvers vegna var það lagt niður?“

Fulltrúi sjúklinga starfaði við Landspítala – háskólasjúkrahús frá 1. maí 2003 til 31. janúar 2004. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum var í upphafi ákveðið að ráða fulltrúa sjúklinga í 50% starf í sex mánuði til reynslu. Vegna góðrar reynslu af starfinu var það framlengt í sex mánuði til viðbótar. Í stuttu máli voru helstu verkefni fulltrúa sjúklinga á Landspítalanum að stuðla almennt að bættri þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Í þessu fólst einkum að útbúa greiðan jarðveg fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra til að koma á framfæri kvörtunum, ábendingum eða athugasemdum sem þeir vildu gera vegna þjónustu sjúkrahússins. Í því skyni var boðið upp á fasta fundartíma fulltrúans á skrifstofu þrjá daga vikunnar. Einnig var auglýstur símatími og loks var unnt að koma ábendingum á framfæri við sjúklinga gegnum auglýst netfang. Á þeim tíma sem fulltrúinn starfaði við sjúkrahúsið leituðu til hans 250 einstaklingar með stór og smá vandamál og fjölbreytt erindi. Þeir einstaklingar voru ekki eingöngu úr hópi sjúklinga og aðstandenda heldur einnig úr hópi starfsfólks sjúkrahússins. Forsvarsmenn sjúklingafélaganna leituðu einnig til fulltrúa sjúklinga.

Réttur sjúklinga til að kvarta er tryggður í 18. gr. laga um réttindi sjúklinga frá árinu 1997. Í raun var staða fulltrúa sjúklinga til þess fallin að auðvelda sjúklingum að neyta þessa lögbundna réttar síns.

Tekið skal fram að ríkar skyldur eru lagðar á leiðbeiningarskyldu starfsmanna gagnvart sjúklingi sem vill kvarta, samanber að starfsmönnum heilbrigðisstofnunar er skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun. Enn fremur er stjórn heilbrigðisstofnunar skylt að taka til athugunar ábendingar starfsmanna sem telja að réttur sjúklinga sé brotinn, en gert er ráð fyrir því í lögunum að starfsmaður geti vakið athygli stjórnar stofnunar ef hann eða hún telur rétt sjúklinga fyrir borð borinn.

Sem kunnugt er þurfti Landspítali – háskólasjúkrahús að grípa til ýmissa aðhaldsaðgerða til að hagræða í rekstri sjúkrahússins í upphafi árs 2004 og var staða fulltrúa sjúklinga þá lögð niður. Ekki vegna þess að starfið hafi ekki gefist vel heldur vegna nefndra aðhaldsaðgerða sem sjúkrahúsið þurfti að grípa til. Þess má geta að fulltrúi sjúklinga gerði við starfslok greinargerð um störf sín þar sem bent var á ýmislegt sem gera mætti í þágu sjúklinga. Greinargerðin var rædd í framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd sjúkrahússins og ákveðið að fylgja eftir nokkrum atriðum sem fólu í sér tillögur til úrbóta. Þau atriði voru bætt atvikaskráning og úrvinnsla, bætt skipulag við útskriftir sjúklinga, bætt viðmót við sjúklinga og úrbætur varðandi upplýsingar til sjúklinga.

Hv. þingmenn óska einnig svars við því hvort heilbrigðisráðherra hyggist beita sér fyrir stofnun sambærilegra starfa, þ.e. fulltrúa sjúklinga í heilsugæsluumdæmum. Því er einfaldlega til að svara að engar ráðagerðir eru uppi um slíkt af minni hálfu sem stendur, ekki vegna þess að ég telji það óþarft heldur vegna þess að ég tel margt brýnna enn sem komið er. Sjúklingar hafa sinn lögvarða rétt til að kvarta og til þess eru skilgreindar leiðir í lögum. Landlæknisembættið gegnir veigamiklu hlutverki í því sambandi og ég er á því að embættið sinni hlutverki sínu mjög vel.