131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Margréti Frímannsdóttir og Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli er varðar stuðning við þá sjúklinga sem eru inni á stofnunum. Ég vil benda á að vandi sjúklinga sem telur sig hafa orðið fyrir læknamistökum er allmikill og þeir telja sig ekki fá þann stuðning sem þeir þurfa til að leita réttar síns því það getur verið erfitt og því mikilvægt að þeir fái stuðning og þjónustu. Ég vil líka minna á að félagsráðgjafarþjónusta hefur verið skert á Landspítalanum vegna aðhaldsaðgerða. Það er því ekki bara starf fulltrúa sjúklinga sem hefur verið lagt niður.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort nokkuð sé til í því að áformað sé að fara að óska eftir greiðslum fyrir þjónustu félagsráðgjafa, t.d. á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Ég vonast til að fá svar við því frá hæstv. ráðherra því það tel ég vera mjög mikla afturför og ekki á það bætandi miðað við hvernig stuðningur við sjúklinga hefur verið dreginn saman eins og hér hefur verið sýnt fram frá.