131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:25]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Farið var af stað með mjög athyglisverða tilraun til að koma á fulltrúa sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og í ljós kom að full þörf var á starfinu. Það voru bæði sjúklingar, aðstandendur og starfsfólk sem leitaði til þessa einstaklings en vegna aðhaldsaðgerða var staðan lögð niður. Hið sama má segja um marga aðra stoðþjónustu innan Landspítala – háskólasjúkrahúss að hún hefur orðið fyrir barðinu á aðhaldsaðgerðum, niðurskurði eða sparnaði og bitnar einmitt á hinum mikilvæga þætti sem er stuðningur við sjúklingana. Ég tel mjög mikilvægt að endurvekja stöðuna, að hún sé tryggð til framtíðar og vel auglýst því að inni á svona stóru sjúkrahúsi veitist sjúklingum oft erfitt að átta sig á því hvert eigi að leita til að fá rétt svör við fyrirspurnum sínum.