131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Umboðsmenn sjúklinga.

641. mál
[15:27]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau svör sem hér komu svo langt sem þau náðu. Fram kom hjá honum að 250 einstaklingum var sinnt á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á þeim stutta tíma sem trúnaðarmaður sjúklinga starfaði. Það sýnir okkur fram á hversu þörfin er mikil. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að embættin þurfa að vera til hliðar við heilbrigðisumdæmi. Heilbrigðisumdæmin hafa verið að stækka verulega og yfirstjórn heilbrigðisumdæma að verða fjarlægari sjúklingunum en áður var og þörfin fyrir að stofna embætti umboðsmanns sjúklinga held ég að verði þá meiri.

Við þingmenn Samfylkingarinnar munum auðvitað endurflytja þingsályktunartillögu sem Ásta B. Þorsteinsdóttir var 1. flutningsmaður að á sínum tíma í þingflokki Alþýðuflokksins. Hún þekkti þessa þörf af eigin raun bæði af störfum sínum og vegna veikinda sinna. Hún þekkti því og kynntist þörfinni vel fyrir slíkt embætti.

Það olli einnig vonbrigðum að félagið Lífsvog sem hefur fengið um 400 þús. kr. fjárveitingu á hverju ári sl. nokkur ár að nú þegar leitað var eftir fjárveitingu til heilbrigðisráðuneytis var þeirri beiðni hafnað. Engu að síður hefur félagið tekið á móti 4–5 þúsund kvörtunum á starfstíma sínum sem eru um tíu ár. Landlæknisembættið stendur sig auðvitað vel að því marki sem það getur. Einn maður sinnir þeim störfum og samkvæmt þeim skýrslum sem komið hafa frá landlæknisembættinu eru kvartanirnar æðimargar. Samt má reikna með að mjög margir sjúklingar og ekki hvað síst aldraðir geti ekki eða reyni ekki að leita á náðir kerfisins um leiðréttingu mála sinna. Ég vonast því til að hæstv. ráðherra taki þetta til skoðunar.