131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Innheimta meðlaga.

689. mál
[15:39]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða að úrskurður er felldur um aukin meðlög, sérframlög eða menntunarframlög er það oftast gert vegna þess að fjárhagsstaða viðkomandi einstaklings er mjög bág. Það er líka í þeim tilvikum þar sem um veruleg veikindi er að ræða t.d. þeirra barna sem eru hjá einstæðum foreldrum sem, eins og ég sagði áðan, eru oftast mæður. Ég er með erindi þar sem um er að ræða skuldir upp á fleiri milljónir sem hafa safnast upp þar sem meðlagsgreiðendur hafa ekki staðið við sitt og jafnvel beitt til þess ýmsum ráðum að komast undan því að greiða.

Fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan að Innheimtustofnun hefur hafnað öllum þeim erindum sem til hennar hafa borist frá einstaklingum um innheimtu. Þau skipta ekki þúsundum vegna þess að fram kom í fyrirspurn sem ég var með til hæstv. dómsmálaráðherra á sínum tíma að þetta væri ekki svo óskaplega mörg tilvik þegar horft væri til heildarinnar. Því þyrfti að gera þá lagabreytingu að í stað þess að Innheimtustofnun sé heimilt að taka að sér innheimtu þessara krafna verði henni skylt, ef eftir því er leitað, án þess þó að um væri að ræða ábyrgð ríkisins á þeim greiðslum, heldur væri þeim skylt að sjá um innheimtuna í þeim tilvikum þar sem um er að ræða bága fjárhagsstöðu eða mikil veikindi.

Þó að ýmis innheimtufyrirtæki taki að sér slíkar kröfur í dag er það engin lausn að leita til slíkra fyrirtækja fyrir bláfátækt fólk sem leitar eftir því að réttur barna þeirra til þeirra fjármuna sem hafa verið úrskurðaðir sé virtur. Þau hafa ekki efni á því frekar en að leita sér ráðgjafar hjá lögfræðingi. Þess vegna er spurning mín ítrekuð: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir að skoða þessar leiðir og kanna um hve mörg tilvik er að ræða?