131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:52]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að mjög er erfitt að úthluta takmörkuðum gæðum. Þessi lottóleið sem hefur verið farin virðist vera skárri en sú leið sem menn hafa farið mjög oft í gegnum tíðina, þ.e. úthluta eftir einhverjum reglum sem voru ekki gagnsæjar. Þá sitja a.m.k. allir við sama borð miðað við hvernig reglurnar eru. En í þessu tilviki verða menn að hafa búið í Reykjavík eða átt lögheimili þar í eitt ár á ákveðnu tímabili, það er því auðvitað búið að takmarka pottinn að vissu leyti.

Hér kom fram að þetta væri vegna sérstaks lóðaskorts af því að 6 þúsund manns hefðu sótt um 30 lóðir. Ég held að hægt sé að fullyrða, virðulegi forseti, að þetta er enginn mælikvarði á það vegna þess að menn sjá ákveðinn gróðamöguleika. Það er alveg ljóst að fjöldi fólks er að sækja um lóðir þarna sem ætlar sér ekki að byggja og eiga þær til framtíðar. Menn eru bara að taka þátt í lottóinu. Þetta er því enginn mælikvarði á lóðaskort.