131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Lóðaúthlutunarreglur Reykjavíkurborgar.

718. mál
[15:55]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja að þakka þessa umræðu og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Ég get alveg tekið undir það, bæði með hv. fyrirspyrjanda og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, að eðlilegast er að sjálfsögðu að sveitarfélögin hafi þetta á sinni hendi með hvaða hætti þau úthluta þessum takmörkuðu gæðum sem þau vissulega eru.

Það sem ég rakti í fyrra svari mínu, hæstv. forseti, voru þau skilyrði sem Reykjavíkurborg hefur sett við úthlutun lóða, við Lambasel sérstaklega. Þau eru fimm og fjögur þeirra að mínu viti fullkomlega eðlileg og í ágætu samræmi við það sem víðast gerist hjá sveitarfélögunum. Það er einkum eitt skilyrðanna sem orkar tvímælis út frá lögum og að sjálfsögðu við þá umræðu sem hér er, hæstv. forseti, ber mér skylda til að vekja athygli á því.

Niðurstaðan er kannski sú sem ekki kemur neinum á óvart sem kynnt hefur sér þessi mál að einhverju leyti, að engin þeirra leiða sem sveitarfélögin hafa beitt er í sjálfu sér fullkomin hvort sem það er uppboðsleið, happdrætti eða hvað við viljum kalla það, þá hafa þær ákveðna galla hver og ein. Það hlýtur hins vegar, hæstv. forseti, að verða að gera þær kröfur til sveitarfélaganna að þau gæti þess hvaða leið sem þau velja að leiðin uppfylli lög. Það er niðurstaðan hér, það er það sem sveitarfélögin verða að fara eftir og í þessu tilviki tel ég, svo ég ítreki það, hæstv. forseti, að það kunni að orka tvímælis að gera það að ófrávíkjanlegu skilyrði að umsækjandi um lóð eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.