131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[11:54]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan hefur Alþingi ákveðið, samþykkt stöðu og stærð þessarar verksmiðju. Stækkunin gæti líka verið háð fyrirvörum um hvernig orku er aflað. Ég er ekki reiðubúinn að fórna hvaða náttúruperlum sem er til þess að verksmiðjan fái að stækka. Ég er ekki reiðubúinn að samþykkja það ef fórna þyrfti Þjórsárverum til þess að verksmiðjan fengi að stækka sig og það væri gerð forsenda til þess að ná rafmagni til hennar. Ég væri ekki reiðubúinn til þess. (Gripið fram í.) Af því að hv. þingmaður var að spyrja hvort einhverja fyrirvara væri hægt að setja þá gætu þeir einmitt verið varðandi orkuöflun að fyrirtækinu. Ég er ekki reiðubúinn að fórna Þjórsárverum eins og var stefna stjórnvalda að gera. Það var stefna stjórnvalda að fórna Þjórsárverum fyrir þessa stækkun. Ég hefði ekki stutt það.

Þessi verksmiðja er komin þarna og vel má vera að hægt sé að færa fyrir því rök að hún þurfi að stækka þetta mikið til þess að ná aukinni arðsemi og það eru bara þeirra útreikningar. En mér finnst afar eðlilegt að þetta sé rætt hér. Það er vitnað æ ofan í æ í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar til stóriðju og stóriðjuframkvæmdanna. Hv. þingmaður gerði lítið úr því að þessi niðurskurður hefði áhrif á efnahagsstærðirnar. Ég er alveg sammála honum í því. En ríkisstjórnin er ekki sammála. Stóriðjuframkvæmdirnar eru aðalrök hennar fyrir niðurskurði í vegamálum.

Ég tel t.d. að á Akranesi og því svæði mætti líka gera átak á öðru sviði. Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er í fjársvelti. Iðnnámið þar er í fjársvelti. Þar mætti fara að hugsa sér að koma upp háskóla og háskólasetri eða háskólastofnun til þess að styrkja það samfélag. Það er hægt að koma að á margan hátt með aðrar áherslur ef nauðsynlegt er. En umræðan hér snýst ekki um það. Umræðan snýst um það hvort hægt sé að horfa alveg fram hjá efnahagsþróun (Forseti hringir.) í landinu með þessar framkvæmdir eða ekki en láta það síðan eingöngu bitna á niðurskurði í vegamálum.