131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari afstöðu þingmannsins og spyr hann áfram: Er hann tilbúinn til að beita sér í stjórnarmeirihluta, þar sem hann á sæti í ríkisstjórnarmeirihluta á þingi, fyrir því að þessu verði breytt þannig að stærra svæði njóti þessa skatts og hvernig þá, ef hann er tilbúinn að beita sér fyrir því? Það er ekki nóg að vera fylgjandi einhverju, maður þarf auðvitað að láta kné fylgja kviði, ef svo má að orði komast, og gera eitthvað í málunum. Er hv. þingmaður tilbúinn til að gera eitthvað í málunum þannig að þessu verði breytt? Eins og komið hefur fram í umræðunni og oft áður í umræðu um þessi mál kemur það í veg fyrir sameiningu sveitarfélaga hvernig þessum málum er fyrir komið í dag. Er hv. þingmaður tilbúinn til að beita sér fyrir að þessu verði breytt?