131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, það hefur alveg komið í ljós hvað hér er á ferðinni. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Verið er að taka fyrir fasteignaskattana vegna stækkunarinnar. Áður en hæstv. ráðherra svarar eftir umræðuna langar mig að koma með spurningar til hæstv. ráðherra sem snúa að því hvert fasteignaskattarnir greiðast.

Eins og fram hefur komið fá tveir litlir hreppar greiðslurnar. Hingað til hafa tveir aðrir litlir hreppar sem liggja þar upp að ekki fengið neitt, Innri Akraneshreppur og Leirár- og Melasveit. Nú hafa þessir fjórir hreppar ákveðið að sameinast, þ.e. Hvalfjarðarstrandarhreppur og Skilmannahreppur munu sameinast hinum tveimur og eitthvað um 500 manns á ferðinni. Auðvitað væri eðlilegast að allt atvinnusvæðið fengi greiðslurnar og Akraneskaupstaður kæmi þar inn í. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að svara því áður en umræðunni lýkur hvort hún sé tilbúin til að beita sér fyrir því að allt atvinnusvæðið fái fasteignagreiðslurnar, hvort hún sé tilbúin annaðhvort að beita sér með lagasetningu fyrir því að hrepparnir og Akraneskaupstaður verði sameinaðir eða beita sér fyrir breytingu á útsvars- eða skattalögum í þá veru að greiðslurnar, sem eru verulegar fjárhæðir, skili sér til alls atvinnusvæðisins.

Þetta er það sem ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra áður en umræðunni lýkur og ætla ekki að lengja hana neitt frekar. Ég á sæti í hv. iðnaðarnefnd þar sem málið kemur til umfjöllunar og við munum auðvitað fjalla um það þar. En það væri mjög gagnlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin til að beita sér fyrir meira réttlæti hvað varðar greiðslur til svæðisins.