131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:32]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Rasismi og kynþáttafordómar eru meðal alvarlegustu samfélagsvanda margra vestrænna þjóða. Sífellt bætast í sarpinn sorglegar sögur um afleiðingar hans. Nú eru blikur á lofti á Íslandi og nýlegar kannanir meðal ungmenna, t.d. á vegum Rannsóknar og greiningar fyrir Rauða krossinn, benda í þá átt að um hreinan viðsnúning sé að ræða í viðhorfum í garð útlendinga og innflytjenda. Umburðarlyndið er á undanhaldi fyrir fordómum og rasisma.

Einnig má nefna fréttaflutning víða af byggðum landsins þar sem vaxandi spenna er í samskiptum Íslendinga, innflytjenda og útlendinga, ekki síst þar sem hlutfallið af útlendingum í samfélaginu er hátt.

Við sjáum óhugnaðinn sem þrífst í kynþáttahyggjunni allt í kringum okkur. Hægri öfgaflokkar hafa tekið flugið og náð allt að 20%–30% fylgi í löndum á borð við Austurríki, Ítalíu, Frakkland og Noreg og nú síðast í Danmörku þar sem hægri þjóðarflokkur Piu Kjærsgaard fékk heil 13% í kosningunum um daginn í hinni umburðarlyndu Danmörku. Þetta er alvarleg þróun og við eigum að læra af mistökum grannþjóðanna og koma í veg fyrir að kynþáttafordómar og rasismi verði að stærra og alvarlegra vandamáli en það er nú þegar.

Ástandið víða í Evrópu er orðið svo alvarlegt að rasismi er orðinn að meginmáli í þjóðfélagsumræðunni og á köflum ríkir hálfgert upplausnarástand á einstökum svæðum. Stjórnvöld hafa að mörgu leyti sofið á verðinum og nú er mál að grípa til markvissra aðgerða annars er hætta á að rasismans sjáist merki í íslenskum stjórnmálum á næstu árum í formi harðlínuflokks sem yrði stefnt gegn Íslendingum af erlendum uppruna. Það skortir skýra stefnu, skýr markmið og markvissar aðgerðir hjá stjórnvöldum.

Sem dæmi um uppgang rasismans á Íslandi má nefna könnun Gallups þar sem fram kom að á fimm ára tímabili hafa kynþáttafordómar í landinu aukist stórum og þeim hefur t.d. fækkað um 14% sem telja æskilegt að heimila eigi fleiri útlendingum að vinna á landinu, úr 42% í 28%. Svipaða sögu má segja um jákvæðni gagnvart flóttamönnum. Árið 1999 voru 45% landsmanna jákvæð gagnvart því að taka á móti flóttamönnum. Nú mælast þeir einungis 27% sem eru jákvæðir fyrir því að við tökum á móti fleiri flóttamönnum. Niðurstöður Rannsóknar og greiningar í könnuninni fyrir Rauða krossinn sýnir svart á hvítu að viðhorf ungs fólks til innflytjenda hefur breyst verulega. Neikvæð viðhorf í garð margs þess sem tengist innfluttum Íslendingum aukast verulega og þeim hefur t.d. fjölgað úr 12% í 20% sem segja að innflytjendur eigi ekki að hafa sömu réttindi og aðrir Íslendingar. Heil 40% segja að of margir innflytjendur séu á Íslandi.

Þá má einnig nefna að í viðhorfum 9.- og 10.-bekkinga til innflytjenda voru árið 1997 einungis 59% jákvæð í garð innflytjenda en það hlutfall var komið niður í 40%–45% árið 2003. Þetta eru sláandi tölur sem bera okkur váleg tíðindi sem kalla á markvissar og brýnar aðgerðir. Fordómarnir eru að aukast, umburðarlyndið er að minnka.

Fordómarnir byggjast á fáfræði og ótta, ótta sem m.a. birtist í dæmalausu tilsvari manns nokkurs í fréttum sjónvarpsins á dögunum þegar hann lýsti áhyggjum sínum af innflytjendum á Íslandi með orðunum: „Þetta endar með því að við verðum einhverjir blendingar, við verðum ekki Íslendingar.“ Þessi orð endurspegla hörmulegt viðhorf sem ber að fordæma. Slíkum viðhorfum eyðum við hins vegar ekki nema með markvissum aðgerðum og fræðslu. Meginmálið er að rannsaka og draga skýrt fram ástæðurnar fyrir uppgangi fordómanna og bregðast við með skipulegum hætti. Þróuninni verður að mæta með því að grafast fyrir um ástæður hennar og leita svo leiða til að sporna við. Vopnin gegn fordómunum og kynþáttahyggjunni eru fyrst og fremst menntun og fræðsla en skólarnir eru vanbúnir til að mæta því verkefni. Bæði grunnskólinn og framhaldsskólinn ættu t.d. að taka upp öfluga mannréttinda- og trúarbragðafræðslu. Óttinn við það ókunnuga magnar bálköst fordómanna og því verður að fræða og miðla.

Því beini ég þeim spurningum til hæstv. félagsmálaráðherra til hvaða aðgerða hann hyggist grípa til að vinna gegn auknum kynþáttafordómum og hvort til standi að rannsaka markvisst ástæður fordómanna og því hve hröð og alvarleg þróunin er ekki síst á meðal ungra Íslendinga.