131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:38]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Í nóvember sl. ræddum við á Alþingi niðurstöður skoðanakönnunar Gallups sem unnar voru fyrir Alþjóðahúsið. Þar komu fram vísbendingar um að dregið hefði úr jákvæðum viðhorfum til innflytjenda frá árinu 1999. Þetta er aftur staðfest í niðurstöðum rannsókna sem Rauði krossinn lét nýlega vinna og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vitnaði til.

Þetta er verulegt umhugsunarefni fyrir okkur öll sem þegna þessa lands og sem foreldra ekki síður en stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög. Hér er um að ræða afstöðu og viðhorf ungs fólks sem á framtíðina fyrir sér, fólks sem stundar skóla, fólks sem hefur líklega ekki upplifað atvinnuleysi, hefur flest góða heilsu og hefur almennt fengið gott atlæti. Þetta eru íslenskir unglingar. Þeir hafa ekki upplifað átök milli kynþátta eða trúarbragðahópa eða ófrið milli ríkja en slíkt er oft uppspretta kynþáttafordóma. Þess vegna kemur á óvart og veldur vonbrigðum að kynþáttafordómar meðal þeirra aukist.

Hæstv. forseti. Fordómar byggjast fyrst og fremst á vanþekkingu og öryggisleysi þess sem þá hefur. Þeir eru birtingarmynd ótta við eitthvað sem er framandi og viðkomandi upplifir jafnvel sem ógnun. En hvernig komum við í veg fyrir þá? Það gerum við fyrst og fremst með því að gera innflytjendum sem best mögulegt að setjast hér að, aðlagast íslensku umhverfi og verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Á sama tíma þarf samfélagið að gera sitt ýtrasta til að koma til móts við fólkið. Í því felst gagnkvæm aðlögun. Það er nauðsynlegt að við mótum stefnu sem felur í sér skýra viðleitni til að auðvelda aðlögunina. Stefnan á m.a. að byggja á því að margbreytileikinn sé kostur en ekki galli á samfélaginu og hún á að hafa reynslu nágrannaþjóðanna til hliðsjónar.

Ýmislegt hefur verið vel gert hér á landi á þessu sviði. Það má þakka bæði framtakssömum einstaklingum, sveitarfélögum og ríki. Ég vil sérstaklega nefna Alþjóðahúsið í Reykjavík, Fjölmenningasetur á Ísafirði, Alþjóðasetur á Akureyri, Rauða krossinn, landlæknisembættið og Reykjavíkurborg. Gróska er í vönduðum rannsókna- og þróunarverkefnum af ýmsu tagi á þessu sviði.

Hæstv. forseti. Við verðum að draga saman þá mikilvægu þekkingu og reynslu sem við höfum öðlast og láta verkin tala. Þörf er á markvissri áætlun af hálfu stjórnvalda eins og hv. fyrirspyrjandi kemst að orði. Það er því mikið ánægjuefni fyrir mig að geta greint Alþingi frá því að í dag hefur lokið störfum nefnd sem ég skipaði sl. sumar til að útfæra nánar tillögur um framkvæmd þjónustu við útlendinga. Í tillögum hennar er lagt til að skipað verði sérstakt innflytjendaráð sem beri ábyrgð á framkvæmd stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum og sé þeim til ráðuneytis. Lagt er til að ráðið verði skipað fulltrúum félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og Sambands sveitarfélaga.

Nefndin leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi framkvæmd tillagnanna, nauðsynlega fjármögnun þjónustusamninga og aðkomu þeirra hagsmunaaðila sem málið snertir. Lagt er til að tillögurnar verði útfærðar sem tilraunaverkefni til fimm ára og endurskoðun fari fram á síðustu tveimur árunum. Tel ég að í framhaldinu mætti m.a. huga að því hvort forsendur séu fyrir lagasetningu á þessu sviði.

Í grófum dráttum má segja að nefndin horfi fyrst og fremst til þeirrar þjónustu sem ekki er nú þegar tryggð útlendingum til handa. Hún kortleggur þá nauðsynlegu þjónustu sem oftar en ekki er án lagastoðar en er á hinn bóginn afar brýn til að innflytjendur verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Í því sambandi er lögð áhersla á þjónustusamninga sem innflytjendaráð gerir við þá sem að mati ráðsins eru best til þess fallnir að sinna þeim verkefnum sem brýnust eru. Gert er ráð fyrir að þjónustusamningarnir innihaldi samkomulag um eftirtalin sex verkefni:

1. Að tryggja öllum sem hér fá atvinnu- og dvalarleyfi leiðsögn um íslenskt samfélag. Innflytjendaráði er ætlað í samvinnu við Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun að vinna að því að fólk þekki réttindi sín og skyldur þannig að það geti tekið virkan þátt í samfélaginu.

2. Að afla og halda utan um tölfræðileg verkefni á sviði innflytjendamála í samvinnu við Hagstofu Íslands.

3. Að samræma miðlun nauðsynlegra upplýsinga til útlendinga á Íslandi.

4. Að gera áætlun um túlkaþjónustu sem nái til landsins alls. Lögð verði áhersla á aðgang allra að sem fljótvirkustu og hagkvæmustu kerfi túlkaþjónustu sem standist gæðakröfur.

5. Fjallað er um þjónustu við sveitarfélög. Innflytjendaráð skal markvisst kynna sveitarfélögum þarfir og aðstæður innflytjenda. Áhersla skal lögð á heildræna þjónustu við fjölskyldur og gagnkvæma aðlögun.

6. Innflytjendaráð skal beita sér fyrir rannsóknum og þróunarstarfi á högum og aðlögun innflytjenda og fylgjast reglubundið með viðhorfum innflytjenda og innfæddra til fjölmenningarsamfélagsins. Enn fremur leggur nefndin til að flóttamannaráð í núverandi mynd verði lagt niður. Í staðinn verði skipuð sérstök nefnd á vegum innflytjendaráðs sem hafi umsjón með móttöku flóttafólks. Nefndin vinni í nánu samráði við Útlendingastofnun og í henni eigi sæti fulltrúar félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Rauða kross Íslands.

Hæstv. forseti. Ég tel tillögur nefndarinnar skynsamlegar og til þess fallnar að draga úr fordómum og mun beita mér fyrir því að þær verði að veruleika þannig að vinnubrögð verði markviss og við náum þeim markmiðum sem að er stefnt. Á næstu dögum mun ég kynna tillögurnar í ríkisstjórn ásamt skýrslu nefndarinnar í heild sinni en ég ítreka að hér höfum við öll verk að vinna og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta þarfa mál upp á þingi.