131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:49]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir verkefni sem þarf að leysa. Við stöndum frammi fyrir verkefni sem er um margt nýtt en sem við getum lært af, ef við setjum okkur skýr markmið og sendum skýr skilaboð.

Gera verður aðra könnun að mínu mati meðal ungmenna til að fylgja þessu fast eftir og þá dýpri könnun en hér er um að ræða. Gera ungmennin sér grein fyrir því t.d. hvað það felur í sér ef nýbúar eiga ekki að hafa sömu réttindi og við höfum ef 20% svara því að svo eigi ekki að vera og 29% er eiginlega alveg sama? Eiga nýbúabörn t.d. ekki að fá að ganga í skóla og vera í tómstundum eins og önnur börn, eru það skilaboðin? Gera ungmennin sér grein fyrir því hvernig þeirra eigin staða væri ef þetta væri heimfært upp á þau sjálf? Ef þau flyttu erlendis með foreldrum sínum mundu þau þá vilja minni rétt? Hvernig væru viðhorfin þá?

Gera þau sér grein fyrir því að hvorki pasta, pitsa né núðlur eru gamalt íslenskt viðbit heldur áhrif erlendis frá á á íslenskt samfélag? Gera þau sér grein fyrir að júdó, karate, körfubolti, jóga, salsa, afró og samba eru áhrif erlendis frá og hvorki arfleifð frá glímunni né íslenskum þjóðdönsum? Vita ungmenni hversu margir útlendingar búa hér þegar yfir 40% svara að þeir séu allt of margir?

Ég segi nei við þessu öllu. Við eigum ekki að una því að kynþáttafordómar meðal ungmenna séu að aukast, við eigum að leggja skýrar línur, byggja brýr og vinna bug á slíku með margþættum aðgerðum. Skólarnir gegna lykilhlutverki, heimilin að sjálfsögðu líka, ábyrgð foreldra er mikil því að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.