131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:51]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Niðurstöður þeirrar könnunar sem er hvatinn að þessari umræðu í dag er okkur mikið áhyggjuefni og hún á að vera okkur mikið áhyggjuefni. En mér finnst að hún eigi kannski fyrst og fremst að vera okkur hvatning til að taka samhent á þessu vandamáli og við eigum að leita fordóma- og sleggjudómalaust bæði að orsökunum fyrir vandanum og líka að lausnunum á honum.

Mér finnst þetta viðfangsefni líka krefjast þess að við lítum í eigin barm og áttum okkur á því að m.a. hin pólitíska umræða hefur áhrif á viðhorf til útlendinga og hún skiptir miklu máli um fordóma og það er ekki bara regluverkið sem við setjum á Alþingi sem skiptir máli um það. Það er líka pólitíska umræðan og það hefur oft gengið á gagnkvæmum ásökunum í þeirri umræðu og það eru útlendingarnir og aðstæður þeirra sem verða fyrir barðinu á því.

Ég bind miklar vonir við tillögur hæstv. félagsmálaráðherra sem eiga öðru fremur að fjalla um aðlögun innflytjenda, aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi. En það er hætt við því, þrátt fyrir að innflytjendaráðið eigi að dekka verksvið fleiri en hans ráðuneytis, að það takmarkist vegna eðlis málsins, vegna skiptingar ráðuneytis eða skiptingar Stjórnarráðsins við þau viðfangsefni sem heyra undir það ráðuneyti. Við getum gert betur með efldu og samhentu átaki og þá er ég ekki bara að tala um átak ráðuneyta heldur átak stjórnmálaflokka líka. Við getum gert betur og mótað heildarsýn og heildarstefnu í þessu málefni sem er útlendingar. Við skulum líka hafa í huga að þeir eru hreint ekki einsleitur hópur og margir innan þessa hóps eiga ekkert sameiginlegt annað en að vera af erlendu bergi brotnir.

Við setningu útlendingalaganna var vissulega gert ráð fyrir því og út frá því gengið að sett yrði heildarstefna stjórnvalda í málefnum útlendinga sem m.a. túlkun og framkvæmd útlendingalaganna tæki mið af.