131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[14:00]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Útlendingum hefur fjölgað verulega í samfélagi okkar á undanförnum árum, fyrst og fremst vegna eftirspurnar eftir vinnuafli, og þeim á eftir að halda áfram að fjölga frá því sem nú er m.a. vegna fjölskyldusameiningar. Frá árinu 1995 hefur fjöldi erlendra ríkisborgara aukist úr 1,8% af heildaríbúafjölda í 3,5%. Hlutfallið nálgast óðum það sem er í Noregi, Svíþjóð og Danmörku en hins vegar er mikill munur á samsetningu innflytjenda hérlendis og í fyrrnefndum löndum. Á Íslandi eru flestir innflytjendur á vinnualdri, þeir fá langflestir dvalarleyfi vegna vinnu. Atvinnuþátttaka útlendinga er því há, eða um 93%, en í nefndum löndum þar sem flestir koma inn sem flóttafólk eða vegna fjölskyldusameiningar er atvinnuþátttakan ekki nema á milli 50% og 60%. Við höfum því þarna talsverða sérstöðu.

Ég vil leggja áherslu á við lok umræðunnar, sem ég þakka fyrir og tel að hafi verið yfirveguð og málefnaleg, að ein af tillögum nefndarinnar sem ég nefndi fyrr er að innflytjendaráð virki einmitt þann kraft og þá þekkingu sem býr í stofnunum og félagasamtökum á borð við Alþjóðahúsið og Rauða krossinn og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék meðal annarra að.

Ég vil sömuleiðis ítreka og undirstrika að innflytjendaráði er ætlað að hafa snertingu við þau ráðuneyti og þá málaflokka sem brenna helst á útlendingum, enda munu í því eiga sæti fulltrúar menntamála-, heilbrigðis- og dómsmálaráðuneytis, auk félagsmálaráðuneytis og Sambands sveitarfélaga, nái tillaga umræddrar nefndar fram að ganga.

Ég tek sömuleiðis undir með m.a. hv. málshefjanda að full ástæða er til þess að brýna okkur sem munum tilnefna fulltrúa í innflytjendaráð, ef tillagan nær fram að ganga, að þar eigi sæti fulltrúar þeirra sem við fjöllum um, þ.e. innflytjenda.