131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:03]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Umræðan hefur dálítið mikið spunnist um álbræðslu yfirleitt og áhrif hennar á atvinnulífið. Ég tek undir með sumum að þetta er afskaplega góð framkvæmd og gleðilegt að menn skuli vera að auka við álbræðsluna á Grundartanga. Ég er einnig sammála því að álbræðslan borgar miklu hærri laun en ferðaiðnaðurinn og ekki er vitað um mikla svarta atvinnustarfsemi í greininni.

Það sem ég ætlaði að ræða var hið furðulega orðalag á breytingartillögunni sem er í samræmi við furðulegt orðalag í lögunum er hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 6.219 millj. kr. sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 130 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í desember 2004 (304,8).“

Maður kynni að halda að þetta væri dæmi í grunnskóla, að læra að reikna prósentur. Ég hef reiknað þetta út. Þetta eru 46.642.500 og ég hefði talið að það ætti að standa þarna. Síðan stendur að borga eigi 0,75% af 1.007 millj. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga vegna aukinnar álframleiðslu upp í 40 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu o.s.frv. Þarna er aftur eitthvert reikningsdæmi. Samanlagt eru þetta 54.195 þús. kr. Maður hefði talið að það lægi nokkurn veginn hreint fyrir.

Ef maður les orðalagið þar sem stendur: „Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi …“ Þá er ekki alveg á hreinu hvort það eigi að borga hvorum um sig eða báðum sameiginlega, en mér skilst að hreppamörkin fari í gegnum kerskálann.

Þegar maður les framhaldið stendur að greiða skuli gjaldið þegar viðkomandi framkvæmdum er lokið og það skuli hækka miðað við byggingarvísitölu. Ég ætla að gera athugasemd við það, frú forseti, vegna þess að eftir stjórnarskrárbreytinguna 1995 er ekki talið heimilt að hafa breytilega skatta á Íslandi, heldur þurfi að ákveða þá með lögum á hverju ári, vegna þess að í nýju ákvæði í stjórnarskránni stendur að skatta skuli ákveða með lögum og ekki megi framselja það vald, hvorki með verðtryggingu eða á annan hátt til framkvæmdaraðila. Þetta vildi ég benda á.

Svo er dálítið ankannalegt, frú forseti, að frumvarp sem varðar eingöngu skattlagningu fari í iðnaðarnefnd en ekki í efnahags- og viðskiptanefnd sem er sú nefnd þingsins sem fjallar um skattamál, en það er víst siður að lög sem varða samninginn um álbræðslu á Grundartanga fari í iðnaðarnefnd.