131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:13]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar um tímasetningar á stækkun álversins og mundi líka vilja fá að heyra hvað stækkanirnar munu kosta. Hæstv. ráðherra minntist einnig á virkjanaframkvæmdir og væntanlega lagnir tengdar þeim. Ég náði ekki alveg hver kostnaðurinn var við þetta, mér heyrðist það vera 18–20 milljarðar en ég mundi vilja heyra aðeins nákvæmar hvað hún var að tala um þar og á hvaða tímabili það kæmi.

Frumvarpið og skattarnir er eðlileg afgreiðsla miðað við þær lagalegu forsendur sem eru fyrir áframhaldandi starfsemi álversins og er ekki gerður neinn ágreiningur um það út frá þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt. En mér finnst eðlilegt að það sé á hreinu hvaða stærðir við tölum um og vil því fá nákvæmar um það hvaða stærðir við erum með í kostnaði á uppbyggingu álversins og virkjananna, vegna þess að í forsendum fjárlaga fyrir árið 2005 stendur, með leyfi forseta:

„Hins vegar er að svo stöddu hvorki reiknað með seinni áfanga stækkunar Norðuráls né byggingu rafskautaverksmiðju á Katanesi.“

(Gripið fram í.) Stækkunin er því ekki í forsendum fjárlaga. Hins vegar er þar gert ráð fyrir gengisvísitölu upp á 125 á árinu 2005, en hún er líklega nær því (Forseti hringir.) að verða 110 ef við horfum fram á veginn. Það er því ábyrgðarleysi að átta sig ekki á því hvaða áhrif slíkar stærðir hafa á efnahagslífið.