131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[14:19]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lítið og pent skattamál, sagði hæstv. ráðherra. Já, þetta er skattamál og ég færði það í tal í ræðu minni að ástæða væri til að skoða þessa hluti og benti á að t.d. Skilmannahreppur hefur 57% af tekjum sínum af fasteignagjöldum og bæti því núna við að næsti hreppur við hliðina, Innri-Akraneshreppur, hefur 4% af tekjum sínum af fasteignagjöldum.

Þó að hæstv. ráðherra hafi nefnt að það væri ekki á hennar verksviði hvað varðar sameiningu sveitarfélaga er það þó óumdeilt að hæstv. ráðherra er byggðamálaráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra þess vegna: Finnst ráðherranum það eðlilegt að ríkið reki þá stefnu sem hefur verið uppi undanfarin ár, sem felst í því að koma á stóriðju í landinu og að skattlagning á mannvirki slíkra stórfyrirtækja sé með þeim hætti að sveitarfélög á sama atvinnusvæði skuli sum fá miklar fúlgur fjár til sín vegna slíkrar starfsemi en önnur ekki neitt, þó að þjónustan sé kannski sótt til þeirra?

Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra hljóti að þurfa að skoða þessi mál upp á nýtt út frá þeim forsendum að þarna er verið að mismuna sveitarfélögum. Eins og í þessu tilfelli hefur þeim sveitarfélögum sem liggja sitt hvorum megin við þessar verksmiðjur, þ.e. Innri-Akraneshreppi og Skilmannahreppi, verið mismunað svo gríðarlega eins og ég nefndi áðan. Annað fær 4%, hitt 57% af sínum tekjum af þeim mannvirkjum sem eru þarna á verksmiðjusvæðunum.