131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:24]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Málið er á þskj. 1066 og er 708. mál þingsins.

Frumvarpi þessu er ætlað að koma á fót skilvirkum markaði fyrir verðbréf í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og einnig fyrirtækjum í hröðum vexti og þannig auðvelda þeim aðgengi að fjármagni.

Á iðnþingi 18. mars síðastliðinn bar ég fram nokkrar tillögur um bætt aðgengi sprotafyrirtækja að áhættufjármagni og fer nú fram í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti frekari stefnumótun á því sviði. Markaðstorg það sem hér er lagt getur gegnt mikilvægu hlutverki við að leiða saman frumkvöðla og áhættufjárfesta. Hér er um einkar mikilvægt mál að ræða þar sem greiður aðgangur fyrirtækja að fjármagni er ein forsenda hagvaxtar.

Til að Ísland geti verið leiðandi vaxtar-, þekkingar- og frumkvöðlasamfélag er mikilvægt að hafa öflugan markað fyrir áhættufjármagn. Ung fyrirtæki í hröðum vexti hafa fæst burði til að fá bréf sín skráð í kauphöll en hafa þrátt fyrir það í flestum tilfellum mikla þörf fyrir aðgang að fjárfestum. Nýleg dæmi eru um hugmyndir frumkvöðla sem hafa fengið að blómstra og orðið að öflugum atvinnurekstri sem teygir sig langt út fyrir landsteinana. Þessi dæmi bera vitni um þann kraft og metnað sem býr í þjóðinni.

Hins vegar verða því miður margar góðar hugmyndir að engu sökum þess að umhverfi fjármögnunar er ekki nægilega opið og skilvirkt. Markaðstorginu er ætlað að vera einn liður til úrbóta á þessu sviði. Slík fjármögnun hlýtur þó ávallt að vera á viðskiptalegum forsendum en gera má ráð fyrir að eftirspurn sé hjá fjárfestum eftir því að fjárfesta í góðum hugmyndum snemma í þróunarferlinu og áður en forsendur skapast til að skrá fyrirtæki í kauphöll. Áhættufjárfestar hafa einnig mikla hagsmuni af því að geta losað um stöðu sína í sprotafyrirtækjum á skilvirkum markaði eins og þeim sem frumvarpið gerir ráð fyrir að settur verði á laggirnar.

Með frumvarpinu er jafnframt stigið fyrsta skrefið að innleiðingu Evrópuþingsins og -ráðsins 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga. Hún gerir ráð fyrir því að settar verði reglur um markaðstorg . Reglunum er ætlað að ná yfir tegund markaða sem hafa rutt sér til rúms á síðustu árum, einkum í Bandaríkjunum og Bretlandi, og starfræktir hafa verið af fjármálafyrirtækjum en teljast ekki til skipulegra verðbréfamarkaða. Tilgangur reglnanna er því að setja samevrópskan lagaramma utan um markaði sem til þessa hafa þróast utan við hinn skipulega verðbréfamarkað.

Markaðstorgum er gefið svigrúm til að móta reglur um starfsemi sína en fjárfestum er þó tryggð grundvallarvernd sem felst m.a. í jafnræði þeirra til að fá upplýsingar og að komið sé í veg fyrir markaðssvik, þ.e. innherjasvik og markaðsmisnotkun.

Á grundvelli þessara viðmiða er gert ráð fyrir að um markaðstorgin muni gilda almennar reglur um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa á innherjaupplýsingum. Aðilum sem reka markaðstorg mun hins vegar sjálfum falið að setja reglur um aðra þætti í upplýsingaskyldu útgefenda, t.d. um birtingu ársreikninga og milliuppgjör, hluthafafundi o.s.frv. Þá munu reglur 43.–51. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, um innherjaupplýsingar og innherjasvik gilda um starfsemi markaðstorga. Reglur laga um verðbréfaviðskipti um viðskiptavaka og markaðsmisnotkun, sbr. 40.–41. gr. laganna, munu einnig gilda fyrir hina nýju tegund verðbréfamarkaða.

Eins og fram kemur hér á undan er ætlunin með markaðstorgi að skapa viðskiptavettvang sem hentar smáum og millistórum fyrirtækjum og ungum fyrirtækjum í örum vexti. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir í frumvarpinu að bundnar verði í lög takmarkanir á stærð fyrirtækja sem skráð eru á markaðstorgi. Flest rök hníga að því að láta markaðnum það eftir að ákvarða hvort fyrirtæki skrái sig í kauphöll, á skipulegan tilboðsmarkað eða markaðstorg. Ætla má að með skráningu í kauphöll eða á skipulegan tilboðsmarkað standi fyrirtækjum til boða fjármagn við lægri kostnaði en fyrirtækjum sem skráð eru á markaðstorgi. Allar líkur eru þar af leiðandi á því að fyrirtæki sem ætla sér að afla verulegs fjármagns, oftast stór fyrirtæki, leiti í kauphöll fremur en á markaðstorg enda yfirvinnur lægri fjármagnskostnaður hærri kostnað við skráningu.

Með sömu rökum má búast við því að flest þau fyrirtæki sem skráð yrðu á markaðstorgi væru tiltölulega smá, þó að engin stærðarmörk verði sett. Hins vegar kunna að vera stór fyrirtæki sem ætla sér ekki að afla mikils fjár um sinn en sjá hag í skráningu af öðrum ástæðum, t.d. til að fá áreiðanlegra mat á verðmæti hlutabréfa og kauprétta sem veittir eru starfsmönnum. Sum stór fyrirtæki kunna einnig að vilja nota markaðstorg til að fóta sig á markaðnum áður en til opinberrar skráningar í kauphöll kemur.

Þrátt fyrir það er lagt er til að girt verði fyrir að félög sem skráð eru í kauphöll við gildistöku laganna geti skráð sig á markaðstorgi fram til 1. júlí 2006. Með þessu er lögð áhersla á að markaðstorg er ætlað smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem og vaxtarfyrirtækjum. Til frambúðar verður þó ekki girt fyrir þennan möguleika og er það í samræmi við framangreinda tilskipun. Stjórn kauphallar er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu banni þjóni það hagsmunum fjárfesta.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.