131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:39]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að koma aftur og reyna að vera skýrari í máli. Ég þekki sjálf hvernig er að vera aðili í máli sem tengist hlutabréfum sem hafa verið á hlutabréfamarkaði og þeirri nákvæmni sem hefur fylgt því að skrá eigur mínar, maka og þeirra sem búa á heimili mínu í tengslum við þau hlutabréf þannig að tryggt sé að allar upplýsingar séu fyrir hendi og engin áhætta í því sambandi. Nú er ég ekki að ætla neinum, bara svo að það sé alveg skýrt, neina sviksemi eða slíkt, heldur einungis að spyrja ráðherrann:

Hyggst hún setja svipaðar reglur og hér er verið að setja um skipulega tilboðsmarkaði eins og hafa verið í kauphöll í tengslum við sölu ríkiseigna almennt án þess að tiltaka eitthvað sérstakt? Eiga sömu reglur að gilda eins og við þekkjum í kauphöll og hér er verið að slá varnagla við? Ég trúi því að hæstv. ráðherra sé ekki að ætla neinum neitt þó að reglurnar séu settar með þessum hætti, heldur tel ég að hér sé bara rétt að farið.