131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:40]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hér er margt sem er sjálfsagt að ræða í nefndinni en eins og hv. þingmaður veit eru sérstakar reglur um félög sem skráð eru í kauphöll og á markaði. Ef fyrirtæki eru óskráð gilda um þau aðrar reglur og hún fjallar hér um einhver atriði sem hún kannski talar ekki alveg út um. Sjálfsagt á hún við einhver einstök tilfelli þar sem henni finnst að lög séu ekki með þeim hætti sem hún vildi sjá þau. Ég held að við ættum að stinga saman nefjum eftir að þessari umræðu lýkur og átta okkur betur á hlutunum.

Svo vil ég ítreka að í þessu tilfelli er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að skoða mál í nefnd. Mér fannst þó miðað við það sem kom fram hjá hv. þingmanni að við séum ekki að fjalla um málefni sem varðar akkúrat þetta frumvarp, heldur frekar önnur lög. Ég útiloka þó ekkert í því sambandi.