131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:42]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mig langaði til að blanda mér örlítið í umræðu um þetta frumvarp um breyting á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

Ég held að margt í þessu frumvarpi sé til fyrirmyndar og gott. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að markmiðið sé að koma á fót vettvangi fyrir viðskipti með verðbréf í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, einnig nýjum fyrirtækjum sem eru í hröðum vexti. Ég get ekki séð að það sé ástæða til að setja sig upp á móti þessu markmiði, enda er það heilbrigt og gott fyrir bæði þau fyrirtæki sem í hlut eiga og sömuleiðis þá fjárfesta sem hafa hug á því að fjárfesta í þessum fyrirtækjum.

Það kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að ástæður fyrir því að það er lagt fram eru nokkrar. Það er vísað til þjóðhagslegra hagsmuna og þá kannski helst þeirra að fyrirtæki hafi aðgang að fjármagni og að slíkt sé forsenda hagvaxtar. Undir það má taka.

Jafnframt má taka undir það sem fram kemur í frumvarpinu að markaðir eins og þessir muni auka aðgengi sprotafyrirtækja að áhættufjármagni sem hlýtur náttúrlega að vera grundvöllur þess að þau geti vaxið og dafnað og hætt að vera sprotafyrirtæki og verði þá almennileg og stöndug fyrirtæki sem geta komið viðskiptahugmyndum sínum og nýsköpun á framfæri. Að sama skapi er vísað til þess að ástæður þessa frumvarps séu að gæta hagsmuna fyrirtækja og ekki síður hagsmuna fjárfesta.

Eitt atriði vakti sérstaka athygli mína og leiddi til þess að ég ákvað að taka þátt í umræðunni. Hér á bls. 3 í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„London Stock Exchange hefur frá árinu 1995 rekið svonefndan AIM-verðbréfamarkað. Sá markaður er byggður á reglum sem kauphöllin í London hefur sjálf sett um markaðinn.“ — Þetta er alveg rétt, í Bretlandi, undir London Stock Exchange, er þessi verðbréfamarkaður AIM rekinn. Hann er rekinn í þágu og fyrir smá og meðalstór fyrirtæki. Þessi markaður hefur sett sér reglur sem kveða á um auðveldari og almennari skilyrði en annars gilda, hvað eigum við að segja, á móðurmarkaðnum á London Stock Exchange.

Þessi markaður hefur það ekki síst að markmiði að auðvelda smáum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að fjármagni. Að því er ég man best hafa þeir tekið upp reglur sem hafa verið hvatning fyrir fjárfesta til þess að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Við Íslendingar höfum fremur farið þá leið að stofna sjóði eins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem hefur verið falið og hefur m.a. það hlutverk að fjárfesta í nýsköpun, t.d. hjá sprotafyrirtækjum. Það verður að segjast eins og er, að þrátt fyrir að tilgangurinn með þeim sjóði hafi verið að sínu leyti verið jákvæður þá er ekki hægt að líta fram hjá því að eignir sjóðsins hafa í raun brunnið upp. Það hefur gengið mjög á eigið fé sjóðsins og síðast á síðasta þingi gerðum við breytingar á lögunum um Nýsköpunarsjóð til að styrkja eiginfjárstöðu hans. Ég er ekki viss um að það eitt og sér muni duga til að menn nái þeim markmiðum sem lagt var upp með þegar sjóðnum var komið á legg. Þrátt fyrir það vil ég taka fram að margt sem sjóðurinn hefur gert hefur verið hefur verið gott.

Eftir því sem ég best veit hafa reglurnar á þessum markaði, Alternative Investment Market sem rekinn er undir London Stock Exchange, verið þær að fyrirtæki, sterkir fjárfestar, hafi tækifæri til að fjárfesta í fyrirtækjum sem skráð eru á þeim markaði að lágmarki 100 þús. pund á ári. En á móti hafa þau fyrirtæki fengið frest á skattgreiðslum sem nemur fjárfestingunni. Sú regla hefur verið í gildi á þeim markaði eftir því sem ég best veit, að fjárfesti þessir aðilar í a.m.k. í þrjú ár á slíkum markaði, í sprotafyrirtækjum, þá líta skattayfirvöld í Bretlandi svo á, haldi menn fjármagni inni á markaðnum í a.m.k. þrjú ár, þá séu þeir skattlagðir á grundvelli fjármagnstekjuskatts en ekki tekjuskatts þegar þeir innleysa fjárfestinguna til baka. Þetta hefur leitt til þess að þau fyrirtæki sem skráð eru á þennan AIM-markað hafa haft ákveðið forskot gagnvart fyrirtækjum sem eru í raun í sömu stöðu en skráð í öðrum löndum. Þau hafa þar af leiðandi haft meiri aðgang að fjármagni en önnur fyrirtæki, t.d. hér á Íslandi.

Það segir sig náttúrlega sjálft að ef við Íslendingar komum á fót markaði með þessa kosti í för með sér fyrir fjárfesta þá yrði miklu álitlegra fyrir þá að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, miðað við það kerfi sem nú er. Þar fyrir utan þá mundu á slíkum markaði opnast ýmis sóknarfæri, ekki bara fyrir þessi fyrirtæki heldur einnig fyrir ýmsa aðra afleidda þjónustu sem leiðir af viðskiptum, t.d. fyrir sérfræðinga sem hér starfa, lögmenn, viðskiptafræðinga, hagfræðinga og alla þá sem starfa í tengslum við þennan markað.

Í sjálfu sér mætti kannski segja að í því að veita slík skattfríðindi þeim sem hyggja á fjárfestingar í sprotafyrirtækjum eða stórum eða meðalstórum fyrirtækjum felist ákveðin niðurgreiðsla gagnvart fjármagnseigendum. Það má vel vera en það má ekki gleyma því að íslenska ríkið hefur verið stórtækt í að veita fjármagn til slíkrar starfsemi, t.d. með framlagi sínu m.a. til Nýsköpunarsjóðs, svo ég tali nú ekki um Byggðastofnun. Það má spyrja sig hvor leiðin sé hagfelldari, ekki bara fyrir ríkið heldur líka fyrir þessi fyrirtæki. Ég mundi fyrir fram, miðað við þá reynslu sem við höfum af stefnu ríkisins og ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar í þessum málum, telja að það væri a.m.k. einnar messu virði að kanna hvort það væri álitlegur kostur fyrir okkur, fyrst við erum að taka til endurskoðunar lög um starfsemi kauphalla og skipulagðra tilboðsmarkaða hvað varðar sprotafyrirtækin og lítil og meðalstór fyrirtæki, að taka upp sama fyrirkomulag og Bretar hafa komið sér upp á þessum undirmarkaði London Stock Exchange. Það gæti leitt til þess að sá markaður, sem blómstraði fyrir nokkrum árum meðal sprotafyrirtækjanna rétti úr sér en það gæti orðið til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og fyrirtækin í landinu.

Þetta var það atriði sem ég vildi sérstaklega koma að, bæði gagnvart hæstv. ráðherra og ekki síst gagnvart hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að reglur þessa markaðar yrðu teknar til skoðunar og hvort þær mundu passa inn í það umhverfi sem hér er til umfjöllunar. Það gæti verið að í því fyrirkomulagi sem Bretar hafa góða reynslu af felist möguleikar og hugsanlega sé ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að taka upp sama kerfi til hagsbóta fyrir þau fyrirtæki sem hér um ræðir og til lengri tíma litið til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf. Að síðustu væri það náttúrlega gott fyrir ríkissjóð vegna þess að það er ljóst að ríkissjóður mun gildna og dafna eftir því sem fleiri fyrirtæki starfa á markaðnum og eftir því sem þeim gengur betur.

Þetta var ábending mín varðandi þetta annars ágæta mál sem ég vonast til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki til athugunar þegar hún fær málið til meðferðar og ekki síður til umhugsunar fyrir hæstv. ráðherra.