131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:52]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsemi kauphalla sem felst í því að taka upp nýtt markaðsform, sem er markaðstorg. Ég er afskaplega ánægður með þetta frumvarp. Það færir upp á yfirborðið gróskumikinn markað með óskráð bréf sem hefur ekki verið sýnilegur vegna þess að það vantar fyrir hann form. Tilraunin með opna tilboðsmarkaðinn brást og ég tel að hér sé um að ræða reglur sem muni laga það og þannig gæti orðið til gróskumikill markaður með minni fyrirtæki og sérstaklega yngri fyrirtæki.

Þó eru smáatriði sem mætti líta nánar á í frumvarpinu, t.d. að stjórn markaðstorgs eigi að birta reglurnar sem hún starfar eftir. Það liggur nú í hlutarins eðli en mér líst mjög vel á að þeir setji sér reglur því að þá eru reglurnar sniðnar að þörfum markaðarins hverju sinni.

En þó er fleira sem mætti gera, frú forseti, varðandi nýsköpun. Sérstaklega væri vert að hætta að hafa nýsköpun sem tekjulind fyrir ríkissjóð. Nú er það þannig, og hefur verið lengi, að það kostar heilmikið að skrá nýtt hlutafélag. Það kostar sennilega um 80 eða 90 þús. kr. að skrá einkahlutafélag og langt yfir 170 þús. kr. að skrá hlutafélag. Þetta er tekjulind fyrir ríkissjóð því skráningin sjálf kostar miklu minna. Ég legg til að menn skoði bara kostnaðinn við að halda hlutafélagaskrá og þeim kostnaði verði breytt í þjónustugjald þannig að það yrði miklu ódýrara að skrá fyrirtæki. Ýmislegt fleira líka mætti laga þannig að við hættum að gera nýsköpun að tekjulind fyrir ríkissjóð. Það er nú óþarfi.

Svo mætti skoða ýmis atriði sem maður hefur rekist á, t.d. eins og þegar frumkvöðull vinnur í mörg ár án þess að sjá nokkurn tímann tekjur. Ef hann stofnar hlutafélag þá þarf hann að borga alls konar gjöld í sjóði fyrir eftirlit alls konar, sem eru eintóm útgjöld fyrir fyrirtækið. Á meðan vinnur maðurinn tekjulaust en verður að telja fram tekjur til skatts. Mér finnst hann eigi að geta frestað skattlagningu á tekjum sem hann er ekki farinn að sjá. Það mundi örugglega hvetja menn mjög til að fara í nýsköpun. Nýsköpun er jú sú grein atvinnustarfseminnar sem skapar flest störfin víðast hvar.

Að öðru leyti hef ég ekki neinu við þetta að bæta. Það verður gaman að fjalla um málið í efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég sit í, og ég er mjög jákvæður gagnvart þessu frumvarpi.