131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:59]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hæstv. ráðherra áðan um vandræði Nýsköpunarsjóðs vil ég segja að hið almenna vandamál í þessum efnum er að stjórnvöld hafa ekki lagt fram nægilegar upphæðir til að slíkir sjóðir hafi bolmagn til að starfa í 10–20 ár þótt þeir verði fyrir einhverjum smááföllum á tímabilinu. Það eru þessar smáskammtalækningar sem eru vandræðin. Í staðinn fyrir að leggja 4 eða 5 milljarða í svona sjóði þyrftu upphæðirnar í raun að vera 40–50 milljarðar til þess að það skipti einhverju máli fyrir nýsköpun í atvinnumálum. (Gripið fram í.)

En ég tek undir tillögu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að athuga þá aðferð sem markaðurinn í London hefur, sem nefnd hefur verið AIM. Ég tel að slík aðferð, að gefa fjárfestum skattaívilnanir og skattleggja fjármagn þeirra eftir að það hefur verið bundið í slíkum smáfyrirtækjum í þrjú ár sem fjármagnstekjur, mjög mikilvæga fyrir sprotafyrirtæki og fyrir smáfyrirtæki í vexti.

Hins vegar vil ég benda hæstv. ráðherra á aðferð til að ná fjármagni í þetta. Ég hef grun um að stóru fyrirtækin sem eru hér á markaði og eru að verða heimsfyrirtæki, sem vaxa kannski á heimsmarkaðnum 50–100% í veltu og umsvifum á hverju ári, fresti skattgreiðslum sínum og hafi aðferðir til að fresta þeim nánast á meðan á þeim vaxtartíma stendur og greiði í raun enga skatta til samfélagsins þó að þeir séu reiknaðir. (Forseti hringir.) Þetta tel ég óeðlilegt þegar vaxtarskeiðið stendur kannski áratugum saman.