131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:10]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ráðherra skipar í umgengnisnefndina og í henni eiga sæti fulltrúar útvegsmanna og sjómanna. Ég hef það ekki nákvæmlega í kollinum hvaða aðilar eru þar í dag. Erindum þessa efnis var vísað til nefndarinnar frá ráðuneytinu en hvenær það var gert man ég ekki nákvæmlega. Hins vegar hafa útvegsmenn tekið það upp hjá sjálfum sér að skoða þessi mál. Þeir hafa komið fram með tillögur um þetta efni. Þær tillögur sem hér eru eru byggðar á niðurstöðum umgengnisnefndar og eins tillögum útvegsmanna, en eins og orðalagið gefur til kynna eru þær niðurstöður sem hér eru ekki nákvæmlega eins og tillögurnar voru og því auðvitað að fullu á ábyrgð ráðuneytisins.

Það hefur verið athugað hvernig hægt væri að flokka aflann um borð í veiðiskipum og það er ljóst að það er auðveldara í nýrri skipum þar sem um betri tanka og fleiri er að ræða en því er ekki til að dreifa hjá hinum eldri. Þetta frumvarp, verði það að lögum, á hins vegar að ýta undir það og gera það bæði skynsamlegt og hagkvæmt fyrir útgerðirnar að flokka aflann um borð og fá þar með sem mest verðmæti út úr meðaflanum, verðmæti sem eru í samræmi við það verðmæti sem felst í að sá meðafli er dreginn frá kvóta skipanna í þeirri tegund sem um er að ræða. Þá er oftast um að ræða tegundir sem að öllu jöfnu, þ.e. við annan veiðiskap, væru mun verðmætari en sú tegund sem reynt er að veiða hverju sinni.