131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:12]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hér nokkrar spurningar í viðbót.

Í 1. grein laganna segir, með leyfi forseta:

„… ráðherra setur reglur um hvernig móttakandi afla eða vigtarleyfishafi skuli standa að sýnatöku og útreikningi meðafla við löndun á uppsjávarfiski.“

Mér þætti gaman að vita hvort búið er að semja þessar reglur. Þá væri líka fróðlegt að fá að heyra, ef hæstv. ráðherra gæti skýrt frá því í stuttu máli, hvernig þessar reglur eiga að vera eða hvernig hann hefur hugsað sér að þær verði útfærðar.

Síðan sé ég í útskýringum við 2. gr. frumvarpsins, í 3. lið, að gert er ráð fyrir því að útgerðir eigi að bera kostnað af þeim símskeytum sem Fiskistofa sendir til að vara menn við því að skipin hafi veitt umfram kvóta. Síðan segir að Fiskistofa hafi „haft verulegan kostnað af slíkum skeytasendingum“. Hér hefði verið fróðlegt að fá að vita eitthvað um þær upphæðir sem um er að ræða, hvort hér sé í raun eitthvað sem ástæða er til að eltast við að rukka menn um. Ég geri mér í raun enga grein fyrir því hvað getur talist „verulegur kostnaður“. Það er náttúrlega teygjanlegt og mjög afstætt hugtak eins og við öll vitum.