131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[15:59]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst full ástæða til að koma í ræðustól og hrósa sérstaklega hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir staðfestuna, að leggja málið fram aftur og aftur og mæla fyrir því.

Ég ætla ekki að nudda honum upp úr því þó að hann hafi skipt um skoðun varðandi kjördæmaskipunina. Ég veit að hann er einn af þeim sem stóðu að þeirri kjördæmaskipan sem við búum við núna og mér finnst hann maður að meiri að hugsa enn lengra til framtíðar.

Af því að menn nefna vegalengdir sem rök fyrir því að stækka kjördæmin og fækka þeim þá langar mig að rifja það upp að ég held ég hafi verið 11 ára, það eru nokkur ár síðan, þegar ég fór með rútu frá Reykjavík og norður til Akureyrar og var 14 tíma á leiðinni. Það var við þær aðstæður sem þeirri kjördæmaskipan var komið á sem við bjuggum við áður.

Ég verð að segja að mér finnast miklu fleiri og sterkari rök fyrir því að landið sé eitt kjördæmi heldur en þau sex sem við erum með núna. Hins vegar fyndist mér gaman að heyra frá hv. þingmanni hvaða leiðir hann sér til að vinna gegn flokksræðinu sem menn eru almennt sammála um að væri eitt af því sem er hætt væri við með því að gera landið að einu kjördæmi.

Miðað við íbúafjöldann á Íslandi, innan við 300 þúsund manns, þótt vegalengdirnar séu nokkrar, þá held ég því fram, ég hef þá tilfinningu, að þetta reisi frekar girðingar og þrengi sýn manna í pólitíkinni sem er alveg óþarfi. Ég held að m.a. víðsýni þingmanna mundi aukast og umhyggja fyrir landinu öllu sem sínu ábyrgðarsvæði ef það yrði gert að einu kjördæmi.

Síðan, varðandi stjórnarskrárnefndina, þá er það hárrétt sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði, að þótt hún sé að störfum þá er endanlega ákvörðunarvaldið á þingi, eða réttara sagt endanlega ákvörðunin um breytinguna á stjórnskipuninni liggur auðvitað hjá þjóðinni. Að lokinni þessari umræðu verður tillögunni auðvitað vísað til viðeigandi nefndar en mér segir svo hugur að í endurskoðunarvinnu stjórnarskrárnefndar, sem skipuð er fulltrúum allra flokka og er hvergi bundin í endurskoðunarvinnu sinni, hljóti mál eins og þetta ágæta þingmál hv. þingmanns að koma til skoðunar og þau rök sem hann færir fyrir því að gera þessa breytingu á kjördæmaskipan.