131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

266. mál
[16:01]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir jákvæð viðbrögð hennar við þessu frumvarpi okkar jafnaðarmanna. Við erum staðfastir í þessari baráttu. Ég hygg að fyrsta málið af þessum toga hafi verið flutt í þessu húsið árið 1927 af Héðni Valdimarssyni, þannig að ég er svo sem ekki fyrsti jafnaðarmaðurinn til að mæla fyrir hugmyndum í þessa veru.

Ég hef svo sem ekki miklu við andsvar hv. þingmanns að bæta að öðru leyti en vildi kasta fram þeirri hugmynd, og tek undir það með henni, að það er stundum óþægilegt að mér finnst þegar menn skipa sér ekki aðeins í stjórnmálaflokka, ekki aðeins í stjórn og stjórnarandstöðu í þessu húsi, heldur hólfa sig einnig í dreifbýlisþingmenn og þéttbýlisþingmenn. Dreifbýlisþingmennirnir halda því fram að þeir eigi miklu erfiðara með að ná eyrum kjósenda sinna vegna veðurfars, samgöngumála og annað slíkt.

Ég ætla svo sem ekki að detta niður í þá umræðu. Ég vil bara skilja þá hugsun eftir, ég hugsa oft um það, að það er ekkert áhlaupaverk hér á suðvesturhorninu að ná eyrum kjósenda á sama hátt og gerist í smærri byggðarlögum þar sem návígið við einstaklinga er miklu nánara og meira. Það liggur stundum við, fyrir utan hina hefðbundnu fundi stjórnmálaflokkanna, að ef við ætlum að hitta fólk sem ekki er virkt í stjórnamálastarfi þá sé það helst úti í búð. Varla setur maður á miklar ræður mitt á milli kosninga úti í kjörbúð eða stórmörkuðum. Menn gera það í góðum gír annað slagið en þar eru líka vandamál af þessum toga sem menn þurfa að huga að. Þetta er þó eiginlega útúrdúr.

Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég þakka henni stuðninginn. Ég finn það og skynja á mínum beinum að það eru ekki bara við jafnaðarmenn heldur þingmenn úr öðrum flokkum sem í auknum mæli eru leynt og ljóst að fallast á þessa skynsamlegu, gömlu, grónu, en framsýnu hugmynd um landið sem eitt kjördæmi.