131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:21]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru talsvert háar tölur um meðafla því að hér erum við að tala um afla sem eftirlitsmenn á vegum Fiskistofu vega og meta að hafi verið meðafli og í flestum tilvikum hefur sá afli sem þarna er um að ræða kannski ekki verið vigtaður eða handfjatlaður. Eftir sem áður erum við að tala um að á milli áranna 2003 og 2004 verður þarna talsvert mikil breyting á, sérstaklega hvað varðar þorskinn, að 156 tonn árið 2003, sem meðafli í þorski með kolmunnaveiðum væntanlega, verða tæp 1.700 tonn á árinu 2004 og því fylgja 2.000 tonn af ufsa. Við erum í raun að tala um aflaheimildir sem mörg smærri sveitarfélög úti á landi teldu sig fullsæmd af. Við verðum því að hafa það í huga þegar við tölum hér um meðafla í flottrollsveiðum að tala ekki um þann afla af neinni léttúð. Þetta er mikill afli og eins og ég sagði margir sem teldust fullsæmdir af því að hafa þessar veiðiheimildir til að geta sótt á heilu ári fyrir jafnvel heilt byggðarlag úti á landi.

Aðeins varðandi 1. gr. Ráðherra setur reglur um hvernig sýnatöku skuli háttað og hvernig reikna skuli síðan út úr þeim sýnum. Mér þætti vænt um það, frú forseti, ef hæstv. sjávarútvegsráðherra gæti upplýst okkur um hvort við í sjávarútvegsnefnd getum vænst þess, nú þegar við tökum málið til umfjöllunar og síðan afgreiðslu, að þær reglur sem hæstv. ráðherra á að setja liggi fyrir núna þegar við fjöllum um málið, því að ég held að það gæti hjálpað málinu frekar en hitt ef við sæjum þær reglur sem ráðherra ætlar að leggja til grundvallar þegar kemur að því að taka sýni og reikna út því að þetta eru óneitanlega sérreglur sem verið er að setja hér og því væri gott að sjá þær.