131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:40]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitt andartak áttaði ég mig ekki almennilega á því þar sem ég sat úti í sal hvort hér talaði útgerðarmaður á uppsjávarskipi sem stundaði kolmunnaveiðar með flottrolli eða hv. þingmaður Frjálslynda flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, sem hefur verið mikill andstæðingur kvótakerfis og reglusetninga varðandi veiðar á fiski. Auðvitað getur verið að það passi saman að það eigi ekki að vera neinar reglur um meðafla í huga hv. þingmanns varðandi uppsjávarveiðarnar á sama hátt og maður hefur stundum heyrt að það eigi ekki vera of miklar reglur um veiðar í önnur veiðarfæri og með öðrum hætti.

Ég hef verið talsmaður þess að sömu reglur gildi fyrir allar veiðar. Ég hef verið talsmaður þess að það sé ekki hægt að segja, eins og hv. þingmaður sagði, að þetta gerði mönnum svo erfitt fyrir ef þeir þyrftu að halda aflanum eitthvað sér, þetta kostaði of mikið, vegna þess að það er einmitt það sem aðrir þurfa að búa við. Það er, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, óhemjumikill reglugerðarskógur varðandi sjávarútvegsmálin og feikilegur kostnaður sem fylgir því að fylgja honum eftir, bæði fyrir stórar og smáar útgerðir, burt séð frá því hvort við tölum um reglur um veiði, afla, veiðarfæri, að leiga til sín aflaheimildir o.s.frv. Það er að mínu mati ekki ástæða eða afsökun fyrir því að taka kvótabundnar tegundir í flottroll með kolmunnanum án þess að þurfa að leggja kvóta á móti. Sömu reglur fyrir alla, burt séð frá því hvort við rýmkum þær reglur eða gerum þær harðari, ég hef verið talsmaður þess að rýmka þær, en umfram allt vil ég sömu reglur fyrir alla.