131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:42]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég er á móti kvótakerfinu og það er einmitt þess vegna sem ég er á móti þessum reglum vegna þess að þær gera ekki annað en að magna upp vitleysuna í kvótakerfinu. Sjá menn það ekki? Hlustaði hv. þm. Jón Gunnarsson ekki á hvað ég sagði áðan? Ég sagði að það væri miklu nær að líta í hina áttina og slaka frekar á kvótasetningum í tegundum sem veiðast sem aukaafli við botnfiskveiðar því að þær kvótasetningar eru gersamlega óþarfar.

Meðaflinn sem veiðist í flottrollið er ekki að ógna neinum fiskstofnum. Ég lít á þetta sem fórnarkostnað við veiðarnar sem skilar þjóðarbúinu milljörðum á hverju ári, skilar gríðarlegri atvinnu í byggðunum, sérstaklega fyrir austan en líka allt í kringum landið þaðan sem skipin koma. Þetta er sá fórnarkostnaður sem við verðum að greiða fyrir veiðarnar. Ég er á móti þessu vegna þess að þetta eykur enn og aftur á vitleysuna í kvótakerfinu.

Mér kemur á óvart að hv. þm. Jón Gunnarsson, sem tilheyrir Samfylkingunni, sem er flokkur sem hefur verið frekar krítískur á kvótakerfið þó þar séu reyndar fjölmargir gallharðir kvótasinnar innan borðs, mér kemur á óvart að hann skuli taka undir aðgerðir eins og þessa sem miða einfaldlega að því að flækja málin enn frekar, miða enn frekar að því að leggja höft á menn og miða enn frekar að því að auka óþarfa kostnað við veiðarnar. Þetta gerir ekkert annað, þetta flækir bara málin. Þetta flækir málin og eykur hættuna á því að menn fari hreinlega að brjóta af sér, til að mynda með brottkasti, það er bara þannig. Skynsamir menn sem hafa vit á fiskveiðum sjá þetta í hendi sér.