131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:48]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Umræðurnar sem hér hafa farið fram hafa út af fyrir sig verið athyglisverðar, sérstaklega skoðanaskipti hv. þingmanna Jóns Gunnarssonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Þeir sjá málið greinilega á mjög ólíkan hátt. Jón leggur mest upp úr því að sömu reglur gildi um alla og vissulega er það rétt hjá honum, að það eiga að gilda sömu reglur um alla sem starfa við sömu aðstæður. Hins vegar gilda ekki sömu reglur um aðila sem búa við mismunandi aðstæður og það þekkjum við úr ýmsum málum sem hér hafa verið til umræðu.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson telur að þetta frumvarp sé íþyngjandi, flæki málin og eigi ekki að fara lengra en í nefnd og verða svæft þar. En eins og fram kom í umræðunum í dag eru reglurnar þannig að sjómönnum ber að flokka afla eftir tegundum í uppsjávarveiðunum og þeim ber að flokka meðaflann frá. Ég lít á þetta frumvarp þannig, og ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson líti að vissu leyti á það sömu augum, að verið sé að reyna að einfalda þetta, þ.e. að reyna að finna auðveldari aðferð sem létti sjómönnum að skrá aflann eftir tegundum. Jafnframt er það látið ganga yfir alla til að koma í veg fyrir að sá þráláti orðrómur verði enn þrálátari að menn komist upp með að veiða afla sem ekki er skráður sem sú tegund sem hann raunverulega er heldur sem eitthvað allt annað.

Ég held að menn ættu frekar að fagna þessu, að með þessu sé reynt að gera málin einfaldari og auðveldari og tryggja að það sem skiptir mestu máli í þessu gangi eftir, að allur afli sé rétt skráður eins og vera ber og það gangi yfir alla. Ég held því að það versta sem gæti gerst í stöðunni, vegna þeirra sjómanna sem í hlut eiga, væri að málið yrði svæft í nefnd því að þá munum við áfram búa við þau lög og þær reglur sem í gildi eru í dag og væntanlega áfram búa við hinn þráláta orðróm sem hv. þm. Jón Gunnarsson gerði að umtalsefni í fyrri ræðu sinni.