131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:51]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talaði aftur um að í gildi væru mismunandi reglur, mismunandi lög um mismunandi útgerðarflokka og veiðarfæri. Ég vil enn og aftur vekja athygli hæstv. ráðherra á því að við erum að ræða lög um umgengni um nytjastofna sjávar en í þeim er kveðið á um hvernig eigi að greiða gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Ég get ekki fundið í þeim lögum að það sé mismunandi með hvaða hætti menn eigi að greiða. Þegar við skoðum þau lög þá er í þeim lögum enginn mismunur gerður á milli veiðarfæra eða útgerðarflokka. Þau gilda jafnt um allar gerðir skipa, allar gerðir veiðarfæra, allar gerðir veiðisvæða og ekki hægt að sjá að það sé neinn mismunur þar á eftir því hvaða veiði menn stunda.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að með þessu frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram er um ívilnandi aðgerð að ræða frá gildandi lögum. Í gildandi lögum um umgengni um nytjastofna sjávar eiga útgerðarmenn uppsjávarskipanna að fara að sömu lögum og allir aðrir. Þannig eru ákvæðin í gildandi lögum. En í frumvarpinu sem hér er til umræðu segir að um þá skuli gilda aðrar reglur og mildari eða ívilnandi reglur frá núverandi lögum. Það má því kannski segja að með frumvarpinu sé hæstv. ráðherra að koma svolítið til móts við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson. Með þeim er slakað á klónni en ekki hert.