131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[17:00]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka heils hugar undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að það á ekki að bregðast við kjaftasögum, það er alveg rétt hjá honum. Mér skilst að þetta hafi verið til umræðu í þinginu fyrr í vikunni og hafi leitt til ýmissa þeirra atburða sem ekki eiga að eiga sér stað hér.

Hins vegar er staðreyndin sú að það hefur komið gagnrýni á það fyrirkomulag sem er í gildi, að það hafi ekki dugað til að leysa það verkefni sem því er ætlað m.a. vegna þess að aðstæður hafi breyst og eins og fram kom í tölunum hafa þær verið að breytast talsvert hratt á milli ára. Þess vegna sé ég ekki annað en að skynsamlegt sé að finna aðra og einfaldari leið sem við teljum að uppfylli þau skilyrði sem lögunum er ætlað að uppfylla, að skrá aflann rétt eftir tegundum og að það sama gildi um alla, eins og hv. þingmenn hafa lagt áherslu á í umræðunni. Varðandi laxinn hefur hann kannski ekki verið stórt áhyggjuatriði í málflutningi mínum. Hins vegar gæti ég vel trúað því að lax gæti komið sem meðafli að einhverju leyti.

Ég vil endurtaka að ég er mjög ánægður með að heyra afstöðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar varðandi kjaftasögurnar, að þær eiga auðvitað ekki að vera grundvöllur að viðbrögðum í hv. Alþingi.