131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:28]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa merkilegu þingsályktunartillögu. Hún er mjög athyglisverð og er sprottin úr vestnorrænu samstarfi sem ég er mikill áhugamaður um. Mér finnst engu að síður þegar við tölum um hörð mál og mjúk mál að við megum aldrei alhæfa of mikið í því sambandi. Hvað eru mjúk mál og hvað eru hörð mál? Við höfum t.d. iðnaðarráðherra sem er kona og við gætum ímyndað okkur að þar væri um harðan málaflokk að ræða. Hins vegar erum við með heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra sem eru karlar og þar gætum við ímyndað okkur að væri frekar um mjúk mál að ræða. Þetta eru ákveðnar alhæfingar eins og líka þegar við tölum hér í þingsölum um höfuðborg og dreifbýli. Við megum passa okkur á þessu, við verðum að ræða slík mál á mjög opnum og breiðum vettvangi.

Það vekur líka athygli mína þegar jafnmerkileg þingsályktunartillaga og þessi er til umræðu að ekki skuli vera hér neinar konur, við erum karlar í salnum en ekki konur. Það þýðir að sjálfsögðu að við höfum áhuga á jafnréttismálum og þau skipta mjög miklu máli. Ég minnist þess þegar kona var heilbrigðisráðherra hér ekki alls fyrir löngu að ég tók einu sinni saman spurningarnar sem hún fékk. Í 85% tilfella voru það konur sem spurðu og börðu á heilbrigðisráðherranum en u.þ.b. 15% karlar. Ég segi líka stundum um konur í stjórnmálum að konur eru konum verstar. Það á við í stjórnunarstörfum líka. Konur vernda oft karla sem eru stjórnendur en ráðast síðan á konur ef þær eru stjórnendur. Þetta eru kannski líka alhæfingar hjá mér en það er a.m.k. vert að íhuga þessi mál.