131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:32]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða um jafnréttismál. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu megum við passa okkur á því að alhæfa ekki í þessu máli frekar en öðrum. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Jónínu Bjartmarz um að það beri að nýta auðinn, sem er auðvitað mjög mikill, auður í krafti kvenna og þar fram eftir götunum.

Ég velti gjarnan fyrir mér kvennavinnustöðum, eins og leikskólum, jafnvel í sumum skólum o.s.frv. Það er mjög nauðsynlegt að í leikskólum séu líka karlar að vinna þannig að börnin venjist því að í uppeldisstéttum séu ekki einungis konur. Mér finnst eins og það séu líka alltaf að verða fleiri og fleiri konur sem starfa í grunnskólum og færri og færri karlar. Þetta er atriði sem er sjálfsagt að velta fyrir sér og velta upp í umræðunni.

Ég held að upp á vinnuanda og annað slíkt sé mjög nauðsynlegt að það sé blanda af körlum og konum á vinnustöðum, ekki bara einungis karlar eða einungis konur. Ég held að andrúmsloftið verði betra ef passað er upp á þetta.

Ég endurtek að mér finnst þingsályktunartillagan afar merkileg og afar þörf og umræðan nauðsynleg og ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir að vekja athygli á málinu.