131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stjórnmálaþátttaka, áhrif og völd kvenna.

244. mál
[17:34]

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki finnst mér verra að vita af stuðningi hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sem er mikill jafnréttissinni og hefur sýnt það í verkum sínum.

Varðandi leikskólana og grunnskólana er það eitt af stóru málunum í jafnréttisbaráttunni að þar starfi karlar ekki síður en konur. En maður veltir því stundum fyrir sér hvað er orsök og hvað er afleiðing. Þetta eru líka tvær stéttir sem hafa barist hart fyrir bættum kjörum sínum undanfarin ár. Eru konur svo fjölmennar í stétt leikskólakennara og grunnskólakennara vegna þess að launin eru ekki meiri, að karlmenn láta sér þau ekki duga? Eða fara ekki karlmenn í þessa stétt vegna þess hve launin eru lág?

Ég bý að þeirri reynslu að hafa átt strák á leikskóla þar sem var karlkyns leikskólakennari, Elli fóstri. Ég hef ekki vitað annan mann í annan tíma jafndáðan og elskaðan. Það segir sig sjálft og ég tala ekki um öll þau börn sem búa á heimilum jafnvel bara með öðru foreldri sínu að þá reynir enn þá meira á að það sé fjölbreytni og að þau umgangist bæði kynin daglega á vinnustað sínum.