131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn.

248. mál
[18:01]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 266 sem er 248 mál þingsins. Tillagan fjallar um stuðning stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn.

Af því að við vorum að tala um jafnréttismál hér rétt áðan þá er dálítið merkilegt að í þessari stétt, þ.e. matreiðslumannastéttinni eru ótrúlega fáar konur. Það er dálítið sérkennilegt vegna þess að í hinu daglega lífi held ég að konurnar séu ekki síður góðir kokkar en karlarnir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa í samráði við landbúnaðarráðherra starfshóp er fái það hlutverk að gera tillögur um hvernig stjórnvöld geti stutt íslenska matreiðslumenn“ — ég vil reyndar bæta inn í kjötiðnaðarmenn og mjólkurfræðinga — „í þeirri viðleitni að auka útflutning á þekkingu þeirra og matargerðarlist en auka um leið útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum, svo sem kjöti, grænmeti og mjólkurafurðum, en einnig fiski og fiskafurðum og fullunnum matvælum. Verkefni starfshópsins verði að:

1. Leggja mat á árangur sem íslenskir matreiðslumenn“ — kjötiðnaðarmenn og mjólkurfræðingar — „hafa þegar náð á erlendri grund og hvernig hann hefur náðst.

2. Leggja mat á hvort stjórnvöld geta stuðlað að frekari árangri á þessu sviði og gera tillögur um hvernig auka má útflutning á þekkingu og færni íslenskra matreiðslumanna“ — kjötiðnaðarmeistara og mjólkurfræðinga.

„3. Gera tillögur um hvernig auka megi útflutning íslensks hráefnis og fullunninna matvæla í tengslum við framangreint.“

Íslenskir matreiðslumenn hafa sýnt það og sannað að þeir eru fagmenn á heimsmælikvarða, um það bera fjölmörg alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar vitni. Góður árangur þeirra getur orðið íslensku þjóðinni mikils virði ef rétt er á haldið. Með honum hefur hugsanlega verið lagður grunnur að nýjum landvinningum þeirra og auknum útflutningi á íslensku hráefni og unnum matvörum. Starf þeirra hefur einnig mikið gildi af því að hluti af ferðamennsku nútímans er að njóta matarins í viðkomandi löndum. Íslenskt hráefni er í sérflokki, hvort heldur um er að ræða fisk, kjöt, mjólkurafurðir eða grænmeti, og ef hráefnið er meðhöndlað af snilld margfaldar það gildi sitt. Af þessum ástæðum hef ég líka sett hér inn mikilvæg störf kjötiðnaðarmeistara og mjólkurfræðinga sem mér finnst vert að séu skoðuð í beinu framhaldi af þessu vegna þess að þeir hafa líka verið með heilmikla landvinninga hvað þetta varðar á erlendri grund.

Þess má geta líka að íslenskir matreiðslumeistarar geta unnið uppeldis- og forvarnastarf og lagt á ráðin um hollt mataræði. Athyglisverðir sjónvarpsþættir voru gerðir í samstarfi matreiðslumanna og ríkissjónvarpsins þar sem ungu fólki var kennd matreiðsla. Sömuleiðis má nefna mikilvægt starf bænda og samvinnu þeirra við matreiðslumenn við framleiðslu á landbúnaðarvöru, hvort heldur er hefðbundna, vistvæna eða lífræna. Í auknum mæli hefur fólk fengið mikinn áhuga fyrir lífrænni framleiðslu og vistvænni og í raun er óhætt að segja að flest þeirra matvæla sem framleidd eru á Íslandi geti talist vistvæn. En til þess að gera lítill hluti þeirra er lífrænn.

Klúbbur matreiðslumeistara tekur þátt í víðtæku alþjóðasamstarfi á Norðurlöndum, í Evrópu og á alþjóðavísu. Forseti þeirra, Gissur Guðmundsson, er einnig formaður eða forseti hinna norrænu samtaka matreiðslumeistara og ef ég man rétt er hann einnig í stjórn Evrópusamtaka matreiðslumeistara. Þetta er kannski dæmi um þá viðurkenningu sem íslenskir matreiðslumeistarar og matreiðslumenn hafa hlotið á alþjóðavísu.

Flutningsmaður tillögunnar, þ.e. sá sem hér stendur, hvetur stjórnvöld, framleiðendur, ferðaþjónustuaðila og forsvarsmenn annarra fyrirtækja til að gefa gaum mikilvægu starfi þessara samtaka að eflingu og kynningu á Íslandi og matvælum sem eru í sérflokki hvað gæði og hreinleika snertir.

Gríðarlegar framfarir hafa orðið í matvælaframleiðslu á Íslandi. Sumir segja að matreiðslumeistarar séu nýir sendiherrar Íslands á alþjóðlegri grund og í raun má það segja einnig um kjötiðnaðarmenn og mjólkurfræðinga. Þeir hafa unnið til mjög margra verðlauna og viðurkenninga vítt og breitt um heiminn.

Það má líka velta fyrir sér markaðssetningu matvöru, t.d. íslensks grænmetis sem er sérstaklega merkt. Íslenskt grænmeti er merkt þeim búum sem það kemur frá. Þetta skiptir allt miklu máli og ég hvet neytendur mjög til þess að horfa til þessara umbúða vegna þess að við sjáum líka að innflytjendur eru reyna að blekkja okkur með því að flytja inn t.d. grænmeti og merkja það síðan eins og um íslenska vöru sé að ræða. En það er gríðarlega mikill munur á gæðum t.d. innflutts grænmetis og þess sem framleitt er á Íslandi. Íslenska grænmetið er miklu betra en það erlenda.

Það má líka velta fyrir sér hvernig menn hafa markaðssett skyrið, þá gömlu hollu mjólkurvöru sem er orðin afar vinsæl meðal ungs fólks og skyr er mjög hollt. Það flokkast undir osta á alþjóðamælikvarða þannig að Íslendingar eru orðin mesta ostaneysluþjóð heimsins, ef ég kann þetta rétt. Lengi vel voru það Frakkar. En ég held að ég fari rétt með að nú séu Íslendingar orðnir mesta ostaneysluþjóð heimsins.

Mörgum orðum má fara um sérstöðu lambakjötsins okkar. Ég var á mjög merkilegri ráðstefnu ekki alls fyrir löngu þar sem einmitt var fjallað um lambakjötið. Þýskur hagfræðingur var hér á landi og var hann einmitt að horfa á kindurnar sem voru uppi í fjöllunum. Þessi hagfræðingur ímyndaði sér að kjötframleiðsla heimsins væri þannig að dýr væru almennt í búrum. En þegar hún sá sauðkindina vappa um fjalllendið skynjaði þessi hagfræðingur að hér væri um ákveðna villibráð að ræða. Þetta eru svona hlutir sem við gerum okkur kannski ekki alltaf grein fyrir.

Það er líka gaman að velta fyrir sér hvernig menn markaðssetja hangikjötið fyrir jólin. Það eru til alls konar útfærslur á hangikjöti. Eitt hangikjötið heitir t.d. birkireykt SS hangikjöt. Svo er til Hólsfjallahangikjöt, Húsavíkurhangikjöt, Borgarnesshangikjöt, Sambandshangikjöt og Goðahangikjöt. Svo eru menn að smakka þetta líkt og um dýrindis vín væri að ræða. Í raun má því segja að við eigum gríðarlega mikla möguleika hvað þetta varðar.

Aðrar þjóðir hafa nýtt sér sína matreiðslumeistara til þess að kynna þá matvöru sem á boðstólum er. Norðmenn hafa t.d. náð mjög langt hvað þetta varðar. Íslendingar hafa hlotið ákveðna viðurkenningu í þessum efnum. Íslenskir matreiðslumeistarar keppa í svokallaðri Bocuse d'Or keppni sem fram fer í Lyon í Frakklandi. Íslendingar hafa náð gríðarlega góðum árangri þar. Árið 2001 áttum við möguleika á að vera með íslenskt lambakjöt í þessari keppni en því miður var kerfið okkar svo gamaldags, vil ég segja, að það tókst ekki. Árið 2005 var hins vegar íslenskur skötuselur einn af þeim réttum sem voru á boðstólum í þessari frægu keppni.

Við eigum að nýta okkur þessa möguleika því að þeir eru gríðarlegir. Sérstaða okkar Íslendinga er mikil á þessum sviðum og ég hvet íslensk stjórnvöld til þess að skoða þessi mál af mikilli alvöru.