131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn.

248. mál
[18:11]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að vekja athygli á því málefni sem við ræðum hér, þ.e. hvernig við getum og ættum að styðja við íslenska matreiðslumenn.

Eitt vakti athygli mína í ályktuninni og það var að hér er gengið út frá því að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa í samráði við landbúnaðarráðherra starfshóp. Þegar ég fór að lesa þetta í gegn þá eiginlega saknaði ég þess að sjá ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessum hópi líka því að við vitum það sem tökum talsvert mikið á móti erlendum gestum starfa okkar vegna að erlendir gestir hrífast oft ekki síður af íslenska fisknum en íslenska lambakjötinu og ekki síður matreiðslunni, þ.e. hvernig við meðhöndlum þetta hráefni og hvernig okkar íslensku matreiðslumenn elda bæði fiskinn og lambakjötið.

Auðvitað værum við kannski ekki að velta þessu fyrir okkur með iðnaðar- og viðskiptaráðherrann og landbúnaðarráðherrann o.s.frv. ef hér væri eitt atvinnuvegaráðuneyti. En það er nú ekki hægt að ræða það hér í stuttu andsvari. En mig langar að spyrja hv. flutningsmann Ísólf Gylfa Pálmason hvort það sé með vilja gert að einskorða þetta við þessi ráðuneyti eða hvort hann telji ekki verkefninu til bóta ef við innvikluðum sjóinn í þetta og þá fisk og fiskafurðir. Í texta þingsályktunartillögunnar er einmitt minnst á fisk og fiskafurðir en ekki minnst á að ráðuneyti þeirra mála komi að því að skipa þennan starfshóp.

Svo veltir maður fyrir sér hverjir ættu að veljast í svona hóp. Kannski getur hv. flutningsmaður farið yfir það hvernig hann sér það fyrir sér. Er þetta ekki einhver blanda þá af embættismönnum, matreiðslumönnum, þeirra fulltrúum og jafnvel frá Samtökum atvinnulífsins?