131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stuðningur stjórnvalda við íslenska matreiðslumenn.

248. mál
[18:13]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þessa þörfu ábendingu. Eins og hann sér þá er ég einn flutningsmaður að þessari tillögu. Ég hefði kannski betur boðið hv. þingmanni að vera með mér á þessari tillögu því að hann sýnir henni áhuga. Þetta er hárrétt ábending og ég hvet til þess að þetta verði hreinlega sett í þingsályktunartillöguna, þ.e. í samráði við sjávarútvegsráðherra, vegna þess að eins og réttilega kom hér fram þá er fiskurinn hluti af sérstöðu okkar. Reyndar hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen sýnt þessum málaflokki mikinn áhuga og átti hann sinn þátt í því að íslenskur fiskur var í þessari frægu Bocuse d'Or keppni sem haldin var í vetur.

Þegar við erum að velta þessu fyrir okkur sé ég fyrir mér sérfræðinga á þessum sviðum. Það hefur safnast upp mikil reynsla hvað þetta varðar. Þeir sem hafa tekið þátt í þessum erlendu keppnum urðu margir verðlaunahafar, bæði í matreiðslukeppnum og varðandi það sem kjötiðnaðarmeistarar hafa verið að gera og það sem mjólkurfræðingar hafa verið að gera. Það er gríðarleg þróun hvað þetta varðar þannig að ég sé sérfræðinga á þessu sviði fyrir mér. Ég sé líka að Útflutningsráð geti komið inn í svona starf og auðvitað ferðaþjónustan því að hún byggist að hluta til á þessu. Mér er sagt t.d. að meira sé selt af lambakjöti í gegnum ferðaþjónustuna en það sem við flytjum til útlanda til dæmis. Möguleikarnir þarna eru gríðarlegir. Víddirnar eru miklar. Ég fagna mjög því að hv. þm. Jón Gunnarsson skuli sýna þessari þingsályktunartillögu svona mikinn áhuga.