131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Breytt hlutföll aldurshópa eftir árið 2010.

249. mál
[18:22]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við að þessi tillaga, sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason flytur, nái fram að ganga. Ég tel mikla nauðsyn á að skoða hvernig framtíðin lítur út að því er varðar aldursskiptingu þjóðarinnar, lífskjör hennar, eftirlaun og atvinnuþátttöku.

Ég tel vert að spyrja hvort eðlilegt sé, hafi fólk til þess eðlilega starfsorku, að eftirlaunaaldur færist endilega mikið niður. Það er algjörlega rétt sem hér hefur verið bent á, að ef ellilífeyrisþegum sem hættir eru að starfa, hættir að taka þátt í atvinnulífinu, fjölgar mikið á komandi árum — og það eru allar líkur á því eins og hv. þingmaður sagði, að ellilífeyrisþegum fjölgi mikið á komandi árum — þá kann það að verða þjóðfélaginu þungt að rísa undir því að tryggja öldruðum eðlilega og sjálfsagða framfærslu á efri árum.

Því hefur verið haldið fram að réttindi lífeyrisþeganna væru að aukast það mikið að margir ellilífeyrisþegar muni margir hverjir lifa sín bestu ár á ellilífeyrisárunum, að afkoma þeirra verði það vel tryggð í lífeyrisréttindum þeirra. Ég hef nokkrum sinnum í þessum ræðustól leyft mér að draga í efa þá framtíð sem lýst var í erindi Ásmundar Stefánssonar, um ellilífeyrisþegann sem hefði það ofboðslega fínt, að hún væri jafnnálægt okkur í tímanum og þar var talið.

Vissulega er það svo að hluti þjóðfélagsþegnanna aflar sér mikils og góðs ellilífeyris. En við megum ekki gleyma því að hluti af þjóðfélagsþegnunum býr við mjög slök lífeyrisréttindi. Það þarf ekki annað en að vitna til bændastéttarinnar í því sambandi, sem hefur mjög slök lífeyrisréttindi. Við höfum að vísu gert talsvert í að bæta stöðu lífeyrisþega á undanförnum árum með auknum lífeyrissparnaði, bæði með því að greiða meira í sameiginlega sjóði, samtryggingarsjóði okkar, og eins með því að taka upp séreignarsparnað sem fylgir hverjum og einum. En eins og menn vita eru hinir almennu lífeyrissjóðir samtryggingarsjóðir og ef fólk verður öryrkjar þá er það metið eins og það hafi greitt áfram í lífeyrissjóðinn. Það fær síðan áunnin réttindi þó að það geti ekki starfað.

Tilhneigingin hefur verið sú að opna meira og meira á það í þjóðfélagi okkar að menn geti hafið töku ellilífeyris yngri, ættu val um það og er allt gott um það. En við þurfum þá að hugleiða vandlega hvort þeir fjármunir sem fólk hefur varið inn í lífeyriskerfið beri uppi þá aukningu. Margir lífeyrissjóðir hafa t.d. boðið það að fólk byrjaði yngra töku lífeyris en þá sé lífeyrir skertur. Það hefur m.a. verið gert í Lífeyrissjóði sjómanna, sem gefur öllum sjóðfélögum í dag kost hefja töku ellilífeyris frá 60 ára aldri en þá með 24% skerðingu. Á móti er þeim líka gert kleift að fresta töku ellilífeyris fram til 70 ára aldurs og vinna sér inn meira en ella væri.

Þetta eru auðvitað allt útfærsluatriði en ég tel mjög nauðsynlegt að við reynum að kortleggja vandamálið eins vel og við höfum tölur til og þekkingu á þeirri þróun sem hér verður. Mér virðist ljóst að miðað við lífeyriskerfi okkar muni Íslendingar sennilega standa betur en margar aðrar þjóðir í nágrenni við okkur vegna þess hvernig lífeyriskerfi hefur þó verið uppbyggt á undaförnum árum og áratugum. Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að hópar í þjóðfélagi okkar eiga ekki mikil lífeyrisréttindi. Ég nefndi bændur og auk þess húsmæður sem hafa unnið heima og þótt þær konur séu mikið til komnar á vinnumarkaðinn í dag. Þá má nefna fólk sem af einhverjum orsökum hefur ekki mikið starfshlutfall, er með tímabundna örorku, varanlega örorku o.s.frv. og vinnur sér ekki inn mikil lífeyrisréttindi. Slíkt þarf vissulega að skoða.

Síðan má ekki gleyma því að almannatryggingakerfi okkar er þannig uppbyggt að lífeyrisréttindi skerða bætur almannatrygginganna og það misjafnlega eftir því hvers konar flokka við erum að tala um. Það er ekki sama hvernig tekjurnar sem ellilífeyrisþeginn fær eru, t.d. lífeyristekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Skerðingin eru mismunandi eftir því um hvað er að ræða. Almenna reglan er 45% skerðing. Ef fólk fær 10 þús. kr. úr lífeyrissjóði, þá skerðast bæturnar um 4.500 kr. nema þegar um fjármagnstekjur er að ræða, þá er fyrst deilt í með tveimur og síðan kemur skerðing. Oftast nær skerðast allar bætur, tekjutrygging, heimilisuppbót o.s.frv. og hverfa alveg. Grunnlífeyririnn stendur eftir gagnvart lífeyristekjunum en hverfur hins vegar við atvinnutekjur sem eru komnar eru upp fyrir rúmlega 250 þús. kr., þá eru allar bætur úr almannatryggingum horfnar.

Allt þetta dæmi þarf að vera undir þegar málið er skoðað. Það þarf að skoða aldurssamsetninguna, reglurnar sem við vinnum með, hvernig þær muni koma við breytta aldurshópa í framtíðinni og hvernig þær muni vinna. Eiga reglurnar að vera eins og þær eru í dag eða öðruvísi? Við í Frjálslynda flokknum teljum að þær eigi að vera öðruvísi. Við höfum lagt fram sérstakt mál um hvað eigi að gerast með lífeyri undir 50 þús. kr. úr lífeyrissjóði, að hann eigi ekki að skerða neinar bætur o.s.frv. Við höfum talið að þannig gerðum við brú til þess tíma er ellilífeyrisþegar fara að hafa það mikinn lífeyri að þeir geti lifað algjörlega af lífeyrislaunum sínum.

Við höldum að það séu áratugir í það enn þá, því miður, að ellilífeyrisþegar eignist svo mikinn lífeyri í lífeyrissjóði að þeir geti lifað af lífeyrissjóðnum einum. Þess vegna held ég að eðlilegt sé að skoða einmitt útfærslu eins og þá sem við höfum lagt til, þar sem 50 þús. kr. út úr lífeyrissjóði skerða engar bætur og eru síðan stighækkandi upp í 100 þús. kr., sem fara þá að skerða með 45% reglu eins og nú er.

Þetta vildi ég sagt hafa. Ég lýsi yfir stuðningi við tillöguna og held að hún sé afar nauðsynleg og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa lagt hana fram.