131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Breytt hlutföll aldurshópa eftir árið 2010.

249. mál
[18:30]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram þaðan sem frá var horfið hjá fyrrverandi ræðumanni, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og þakka flutningsmanni fyrir þingsályktunartillöguna, um könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa eftir árið 2010. Ég held að þetta sé mjög skynsamleg tillaga og lýsi yfir furðu á því í upphafi máls míns að ríkisstjórnin skuli ekki hafa fundið hjá sér þörf eða fundið fyrir þeirri skyldu sem hlýtur að hvíla á henni að þessi mál verði skoðuð einmitt af vinnuhópi sérfræðinga hvernig stöðu þessara mála mun verða háttað eftir árið 2010, þ.e. eftir fimm ár, þegar hippakynslóðin svokallaða fer að komast á eftirlaunaaldur. Það er ansi stór torfa þar af Íslendingum sem syndir um og verður eldri og eldri með hverjum deginum sem líður. Þar hygg ég að muni byrja að rísa mjög stór alda sem mun ganga yfir á mörgum, mörgum árum, því mjög stórir árgangar koma þar á eftir. Til að mynda held ég að minn árgangur, 1964, sé einn efnilegasti árgangur sem fram hefur komið í íslenska stofninum. (Gripið fram í: Það árið?) Það árið? Nei, nánast frá upphafi vega, en nóg um það. Við eldumst að sjálfsögðu líka, fólk af minni kynslóð.

Þetta mun hafa gríðarlega mikil áhrif og við verðum að fara að velta því mjög alvarlega fyrir okkur hvernig við ætlum að taka á þessu. Ég hef fylgst nokkuð með umræðunni í nágrannalandi okkar, Noregi. Umræðan hefur verið í gangi þar í mörg ár. Norðmenn gerðu sér grein fyrir því fyrir mörgum árum að þetta mundi einmitt fara að gerast um 2010, 2020, að þá kæmi þessi mikla bylgja yfir og þeir eru fyrir löngu farnir að undirbúa sig fyrir þetta, farnir að ræða það í fúlustu alvöru: Hvernig ætlum við að halda uppi heilbrigðiskerfinu, félagslegri þjónustu og öðrum nauðsynlegum samfélagslegum þáttum til að taka við þessum fjölda?

Þar eru menn jafnvel farnir að tala um að leyfa fólki að halda áfram að vinna þó að það sé komið á eftirlaunaaldur til þess að það geti þá m.a. bæði haldið betur heilsu, því að menn fallast á það að margir, bara ef þeir fá að vinna, fá að hafa eitthvað við að vera, að þá verði heilsufar þeirra miklu betra fyrir vikið. Ég hygg að það sé mikið til í því. Einnig að fá þetta fólk sem gæti aflað sér tekna, ef það vill vinna á annað borð eftir að það er komið á 65 ára aldurinn, hefur til þess heilsu og vilja, að þá að sjálfsögðu mun það hjálpa til við að halda uppi byrðum samfélagsins. Þetta eru Norðmenn að skoða í fullri alvöru.

Þeir eru líka þegar farnir að skoða og velta því fyrir sér hvað muni gerast til að mynda í kringum árið 2010, því ég sé að þá reikna þeir með því að hinn stóri skari af eftirlaunaþegum sem verður búinn að leggja til hliðar mikinn sparnað, til að mynda í formi hlutabréfa sem fólk hefur verið að kaupa sér í hlutabréfasjóðum, að þegar þetta fólk kemst allt saman á eftirlaunaaldurinn muni það fara að selja í unnvörpum. Norðmenn hafa í dag áhyggjur af því að þá muni gengi á hlutabréfamörkuðum taka mikla dýfu vegna aukins framboðs á bréfum. Umræðan í Noregi er komin á þetta stig, þar eru menn farnir að tala á þessum nótum núna árið 2005, þeir velta þessu mikið fyrir sér. Það er löngu tímabært að við Íslendingar förum einnig að gera það og þess vegna held ég að þingsályktunartillagan sé mjög þarft og gott innlegg í þá umræðu. Hún kemur reyndar mjög seint fram, það er mælt fyrir henni mjög seint. Ég veit ekki hvort það næst að afgreiða hana út frá þessu þingi en ég tel að það væri mjög þarft verk að gera það þannig að vinnan hæfist sem fyrst og álit nefndarinnar lægi fyrir innan árs og gæti orðið grundvöllur fyrir umræðu og jafnvel áætlanagerð og frjóa hugsun varðandi það hvernig íslenska velferðarþjóðfélagið ætlar að taka á því þegar hinir stóru árgangar komast á eftirlaunaaldur.

Ég lýk því orðum mínum með sama hætti og fyrri ræðumaður. Ég þakka flutningsmanni fyrir að hafa borið fram þingsályktunartillöguna og vona svo sannarlega að hún verði samþykkt með glans.