131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Breytt hlutföll aldurshópa eftir árið 2010.

249. mál
[18:36]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir góðar undirtektir. Hér er að mínu mati um afar brýnt mál að ræða og skiptir miklu máli að undirbúa þjóðfélagið undir hinar miklu breytingar. Ég hef reyndar flutt tillöguna áður og þá var um örlítinn misskilning að ræða því nokkrir aldraðir höfðu samband við mig og töluðu um að ég vildi fækka öldruðum o.s.frv. Það var um misskilning að ræða. Tillagan er fyrst og fremst hugsuð til þess að mæta þessari þörf og bæta kjör aldraðra og huga að þeim miklu breytingum sem verða. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar batnar vonandi hagur ellilífeyrisþega í komandi framtíð, en til þess að hann geti batnað verðum við að undirbúa samfélagið okkar með ákveðnum hætti.

Það er líka hárrétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að ákveðnar stéttir hafa mjög lélegan lífeyri, t.d. bændur, húsmæður og margir, margir fleiri. En ég hvet, eins og fram kemur í tillögunni, ríkisstjórnina til að skoða þessi mál ofan í kjölinn og undirbúa samfélagið undir þær gríðarlegu breytingar sem eiga sér stað, þjóðin er alltaf að eldast og færri og færri vinnandi hendur sem standa undir þjóðfélaginu